Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, var snúin niður af dyravörðum skemmtistaðarins Kíki queer bar í miðbæ Reykjavíkur sl. föstudagskvöld og í kjölfarið handtekin af lögreglu. Þetta hefur þingmaðurinn sjálfur staðfest við fjölmiðla, en mbl.is sagði fyrst frá fyrr í dag.
„Dyraverðir óskuðu eftir aðstoð. Dyraverðir voru búnir að snúa mig niður vegna þess að það átti að henda mér út fyrir að hafa verið of lengi á salerninu, það er bara svoleiðis. Ég er þingmaður og ég hugsaði með mér: „Það er kannski ekki alveg ástæða til að bera mann hér út“. Þetta var óþarflega niðurlægjandi og óþarflega mikil harka af þeirra hálfu [dyravarðanna] og þar streitist ég á móti og þetta kannski vindur upp á sig og þau óska eftir aðstoð lögreglu við að koma mér út,“ segir Arndís Anna í áðurnefndri frétt.
Síðast þegar Viljinn vissi, stundar lögreglan ekki að handtaka fólk fyrir að dvelja of lengi á klósettinu. Það blasir því við að eitthvað mikið vantar í þessa sögu. Til dæmis spurningin: Er þingmaðurinn með réttarstöðu sakbornings? Í anda stefnu Pírata um gagnsæi er við því að búast að birt verði opinberlega öll gögn um málið; málatilbúnaðar dyravarða staðarins, skýrsla lögreglu og framburður sjónarvotta.
Það er ekkert smámál fyrir þingmann að vera handtekinn af lögreglu. Hvarvetna í heiminum yrði það tilefni fjölmiðlastorms. Píratar hljóta að taka þetta mál föstum tökum. Og Íslandsdeild Transparency International hlýtur að vera í viðbragðsstöðu…