Þingmenn fleiri en fundargestir á Píkudögum

Femínistar beina gjarnan sjónum að þeim stöðum sem konur eru í minnihluta.

Kallinn á kassanum skrifar:

Lítill áhugi virðist hafa verið fyrir lokaviðburði Píkudaga 2019, undir yfirskriftinni Frjósemisfrelsi íslenskra kvenna sem fór fram í Háskóla Íslands í gær, en afar fámennt var á málþinginu.

Femínistafélag Háskóla Íslands stóð fyrir viðburðinum ásamt Píkudögum. Aðeins sjö manns höfðu skráð sig á viðburðinn á facebook, þar af voru tveir þeirra sex þingmanna sem sátu í pallborðinu og þrír úr stjórn Femínistafélags Háskóla Íslands.

Fór svo að þingmenn voru fleiri en hefðbundir fundargestir, en auk þess sátu skipuleggjendur fundarins úr Feminístafélaginu fundinn.

Frjósemisfrelsi er réttur kvenna til þess að ákveða hvort, hvenær, og hvernig þær eignast börn, skv. kynningu á viðburðinum sem var auglýstur á facebook-síðu Femínistafélags Háskóla Íslands. Til umræðu voru þar fyrirliggjandi frumvörp um þungunarrof og um fæðingarstyrk vegna ættleiðingar.

Fulltrúar allra þingflokka utan Miðflokksins og Flokks fólksins, sátu í pallborði. Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, hafði afþakkaði þátttöku, vegna þess að félagið tók undir yfirlýsingu Kvenréttindafélags Íslands sem tengdist Klausturmálinu. Gunnar Bragi sagði að yfirlýsing Kvenréttindafélagsins hafi „einkennst af einelti og rógburði gegn eina kvenkyns þingmanni Miðflokksins“, að því er fjölmiðlar greindu frá í vikunni.

Frá Framsóknarflokki mætti Halla Signý Kristjánsdóttir, frá Pírötum Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson frá Samfylkingu, Bryndís Haraldsdóttir Sjálfstæðisflokki, Hanna Katrín Friðriksson frá Viðreisn og Andrés Ingi Jónsson frá Vinstri grænum.