„Níutíu ára Sjálfstæðisflokkur á ekki í vændum eilífan aldur ef afmælið gengur fyrst og fremst út á að bjóða forystumönnum annarra flokka upp á brauð og tertu. Darwin talar um aðlögun. Er Sjálfstæðisflokkurinn aðlaðandi eða aflaðandi? Hvernig standa kynningarmál Sjálfstæðisflokksins? Hver er sýnileiki þingmanna Sjálfstæðisflokksins á menningarviðburðum? Þingmenn flokksins eru mestan part ósýnilegir.“
Þetta skrifaði Vilhjálmur Bjarnason, fv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðið á föstudag. Hann sagði nú svo komið, að aðeins örfáir viti hverjir eru alþingismenn Sjálfstæðisflokksins.
„Þeir þurfa að spyrna í botninn. Eða er betra að hafa þá í kafi áfram? Það eru innan við tvö ár til næstu kosninga. Hvað ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að bjóða upp á annað en vín í búðir?“
Vilhjálmur segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi leitt mikið hagvaxtarskeið yfir landið og Bjarni Benediktsson, formaður flokksins og fjármálaráðherra, þreytist ekki á að benda á það.
„Það er ekki vanþakklæti kjósenda að snúa baki við Sjálfstæðisflokknum, heldur eru væntingar ekki uppfylltar. Einhver örvænting snýr fólki til fylgis við aðra flokka, Samfylkingu eða Miðflokk, sem hegða sér með óráðshjali eins og pólitískir vinda blása hverju sinni. Nægir þar að nefna óráðshjal um orkumál,“ segir Vilhjálmur og spyr hvers vegna í ósköpunum Sjálfstæðisflokkurinn hafi þurft að vera þátttakandi í því að styðja afturköllun aðildarumsóknar að Evrópusambandinu.
„Vissulega var enginn möguleiki á því að umræða um aðildarumsókn kæmist á dagskrá Alþingis. Sofandi aðildarumsókn gerði ekkert mein. Afturköllun aðildarumsóknar að Evrópusambandinu skapaði grundvöll fyrir Viðreisn. Frumkvæði að afturköllun kom frá þeim er síðar urðu Klausturmunkar Miðflokksins.“
Við þessi skilyrði er allt í einu flokkur undir forystu fúllynds Akureyrings að auka fylgi sitt. Algerlega óverðskuldað.
Um fylgisaukningu Samfylkingarinnar, segir Vilhjálmur ennfremur:
„Það er rétt að íhuga stöðu mála í íslensku efnahagslífi. Besti mælikvarði á efnahagslegan stöðugleika er verðbólga. Verðbólga frá ársbyrjun 2013 hefur verið um 2,34% að meðaltali á ári. Það er lítil verðbólga í sögulegu samhengi. Það er óðaverðbólga sem rústar eftirlaunum. Vextir eru í sögulegu lágmarki. Það er afgangur af utanríkisviðskiptum og jafnvægi í ríkisfjármálum. Stöðugleiki í efnahagsmálum er ávísun á lífskjarabata.
Við þessi skilyrði er allt í einu flokkur undir forystu fúllynds Akureyrings að auka fylgi sitt. Algerlega óverðskuldað.“
Og hann brýnir sína menn til dáða:
„Þingmenn verða að spyrna í botninn, koma úr kafi og láta sjá sig. Tala við kjósendur, hlusta og útskýra á máli sem skilst.
Það eru innan við tvö ár til næstu kosninga. Er ekki rétt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að skerpa á sinni framtíðarsýn og stefnu fyrir Ísland?
Hvers konar pólitík á flokkurinn að reka og hvernig getur hann skapað sér skýrari aðgreiningu frá öðrum flokkum á Alþingi; ekki bara til að vera öðru vísi heldur til að gera gagn, skapa lífsgæði og ánægju umfram fúllyndi annarra stjórnmálaflokka.“