Þjóðarbúið hefur orðið fyrir miklu áfalli

Seðlabanki Íslands mun leggja sveiflujöfnunarauka á bankakerfið á laugardaginn.

Ekki hafa margir áttað sig á því hvers konar staða er í reynd komin upp á Reykjanesi og hvers konar tjón blasir við þjóðarbúinu, hvort tveggja nú þegar og eins ef verstu sviðsmyndir rætast.

Einn þeirra sem horfir raunsætt á stöðu mála er Erlendur Magnússon fjárfestir og fv. bankamaður. Hann segir Seðlabankann alls ekki eiga að grípa inn í gjaldeyrismarkaðinn þessa stundina.

„Nú þegar hefur orðið verulegt tjón vegna náttúruhamfara á Reykjanesskaga. Mikið af íbúðarhúsnæði í Grindavík hefur orðið fyrir verulegum skemmdum og það sem ekki hefur skemmst er orðið verðlítið. Mikið tjón hefur orðið á innviðum. Rekstur framleiðslu og þjónustufyrirtækja hefur raskast og sum orðið fyrir óbætanlegu eignatjóni. Þetta er það tjón sem þegar hefur átt sér stað og það eru því miður líkur til þess að tjónið geti orðið enn meira hefjist eldgos á Reykjanesskaganum.

Erlendur Magnússon.

Það er deginum ljósara að þjóðarbúið hefur orðið fyrir miklu áfalli. Útflutningstekjur munu dragast eitthvað saman vegna þessa, staða ríkissjóðs versna verulega, og kaupmáttur launa mun rýrna. Það eru bara kjánar sem halda að kaupmáttur launa í landinu ráðist við samningaborðið í Borgartúni – kaupmáttur launa ræðst í raunhagkerfinu þar sem verðmætasköpunin á sér stað og raunhagkerfið hefur orðið fyrir skakkaföllum sem ekki verður leyst úr á skömmum tíma.

Gengi krónunnar þarf að leita nýs jafnvægis í ljósi breytts umhverfis. Það hjálpar lítt ef Seðlabankinn reynir að standa gegn því með inngripum. Óumflýjanleg veiking krónunnar mun rýra kaupmátt alls almennings við kaup á erlendum vörum og þjónustu og styðja við útflutningsgreinar landsins og þannig stuðla að því að við komumst fyrr upp úr þeim vanda sem náttúruöflin hafa valdið.

Seðlabankinn þarf einnig að stöðva vaxtahækkunarferlið a.m.k. þar til rykið hefur sest og aðilar vinnumarkaðarins þurfa að semja sem fyrst um launahækkanir í takt við það sem gerist í öðrum Evrópulöndum, þ.e. 1-2% á ári næstu 2-3 árin. Þannig eru mestar líkur á að kjör landsmanna batni hraðast og mest á komandi árum.“