Ástæða er til að staldra við skrif Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, í Viðskiptablaðinu sem kom út fyrir helgi, þar sem hann fer hörðum orðum um það stórfurðulega kerfi sem orðið hefur til hér á landi og virðist koma í veg fyrir að hægt sé að nýta grænar leiðir til orkuöflunar, á tímum þar sem flestar þjóðir setja aukinn þunga í slíkar aðgerðir, bæði vegna hækkandi orkuverðs og loftslagsáhrifa.
Hörður segir í grein sinni að þegar (ekki ef) fari að kreppa að á næstu árum í orkumálum verði ekki við Landsvirkjun að sakast. Fyrirtækið hafi ítrekað bent á hvert stefni árum saman en virðist tala fyrir daufum eyrum.
„Íslendingum hefur tekist að byggja upp raforkukerfi sem er einstakt á heimsvísu. Það er einangrað, ótengt öðrum kerfum og með 100% endurnýjanlega orku sem verður æ verðmætari,“ segir hann ennfremur og bendir á aukna þörf fyrir raforku, sem fyrirtækið hafi reynt að mæta. „Aukning hjá heimilum og smærri fyrirtækjum er um 5-10 MW/ári. Stjórnvöld hafa jafnframt sett sér metnaðarfull markmið um orkuskipti á landinu og stefna að því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis fyrir lok árs 2040. Árlega eru fluttir inn um milljón lítrar af bensíni og olíu svo það gefur auga leið að það þarf töluverða, innlenda orkuframleiðslu til þess að vega upp á móti því.“
Og að óbreyttu segir forstjóri Landsvirkjunar að heimatilbúinn orkuskortur standi þjóðfélaginu og uppbyggingu atvinnulífs fyrir þrifum: „Það tekur nefnilega langan tíma að byggja nýjar virkjanir. Gera má ráð fyrir 3-4 ára framkvæmdatíma í vatnsafli og jarðvarma – eftir að öll leyfi liggja fyrir. Leyfisveitingarferli fyrir nýjar virkjanir er því miður gríðarlega þungt í vöfum og óskilvirkt, stofnanir sem eiga að sinna því virða t. a. m. ekki tímafresti og mikilvægi frekari orkuvinnslu fyrir samfélagið er ekki haft að leiðarljósi.“