Þögnin rofin: Píratar birta kolsvarta skýrslu um Lindarhvol – nýtt hneyksli í uppsiglingu

Með ákvörðun Sigurðar Þórðarsonar, setts ríkisendurskoðanda í málefnum Lindarhvols, um að vísa málefnum félagsins og sölu á eignum hins opinbera til ríkissaksóknara, hefur þögnin um þetta umtalaða mál loks verið rofin, eins og spáð var að myndi gerast hér á Viljanum í morgun.

Fimm ár eru frá því skýrsla Sigurðar lá fyrir, hann hafði þá unnið að málinu í tvö ár, en var skyndilega tekinn úr verkefninu, því hann spurði „óþægilegra spurninga“ og var með „almenn leiðindi“ við áhrifamenn sem ekki voru vanir slíkir trakteringum.

Í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir ári, sagði Sigurður: „Mér leikur forvitni á að vita hvað það er í greinargerðinni sem menn vilja ekki að birtist.“

Nú hafa þingmenn Pírata birt skýrsluna á vef sínum í anda gagnsæis og er ljóst að nægilegt fóður er þar að finna fyrir fjölmargar fréttir næstu daga sem geta haft miklar afleiðingar. Skýrsluna má lesa hér.