Samherjamálið, sem tröllriðið hefur þjóðmálaumræðunni undanfarna daga og vikur, hefur ekki farið framhjá neinum. Athygli hefur vakið, að Samherjamenn hafa lítinn sem engan þátt tekið í henni, utan auðvitað að forstjórinn Þorsteinn Már Baldvinsson steig til hliðar, hefur sagt sig úr ótal stjórnum tengdra fyrirtækja og Björgólfur Jóhannesson tók við starfi hans tímabundið.
Forystumenn Samherja hafa vísað til þess að þeir hyggist ekki ræða ásakanir á hendur fyrirtækinu efnislega fyrr en fyrir liggur úttekt norskrar lögfræðistofu á skjölunum sem Wikileaks hefur birt og ásökunum þeim sem Jóhannes Stefánsson hefur sett fram.
Þetta hefur leitt til þess að starfsmenn fyrirtækisins og fjölmargir aðrir hafa átt heldur erfitt uppdráttar í umræðunni á kaffistofum vinnustaða og jafnvel í fjölskylduboðum og á förnum vegi, enda erfitt að verjast þegar engar upplýsingar er að hafa nema úr annarri áttinni og þær heldur óskemmtilegar, svo vægt sé til orða tekið.
Í því ljósi ber væntanlega að skoða að þögnin hefur skyndilega verið rofin með tveimur yfirlýsingum sem birst hafa á heimasíðu Samherja síðastliðinn sólarhring, þar sem spjótum er beint að Helga Seljan fréttamanni og hann sakaður um blekkingar og dylgjur.
Viljinn skýrði frá fyrri yfirlýsingunni í gærkvöldi (hana má lesa HÉR) og var fréttamaðurinn ekki lengi að svara henni á samfélagsmiðlum. Svaraði hann fullyrðingum Samherjamanna lítt efnislega, en lét fylgja með tengil í namibískan fjölmiðil (götublaðið The Sun) þar sem finna mætti fullyrðingum hans um töpuð störf heimamanna í namibískum sjávarútvegi stað.

Þetta varð til þess að á vefsíðu Samherja birtist nú síðdegis ný yfirlýsing, sem er svohljóðandi:
Helgi Seljan, fréttamaður Ríkisútvarpsins, hefur nú endurtekið rangar fullyrðingar sínar um glötuð störf í namibískum sjávarútvegi eftir að félög tengd Samherja hófu starfsemi í landinu. Þannig hefur hann endurflutt sömu ósannindi og hann fór með í morgunútvarpi Rásar 2 í gærmorgun og Samherji leiðrétti í gær.
Helgi vitnar í frétt götublaðsins The Namibian Sun þar sem fullyrt er að störf hafi tapast í namibískum sjávarútvegi eftir að fyrirtækið Namsov missti þúsundir tonna af úthlutuðum aflaheimildum vegna breyttra reglna um úthlutun. Fyrst skal áréttað að engin störf glötuðust í namibískum sjávarútvegi eftir breytingar á úthlutun aflaheimilda í hrossamakríl heldur fluttust störfin milli fyrirtækja og skipa. Þá er mikilvægt að halda því til haga að fyrirtækið Namsov var lengst af ekki í eigu Namibíumanna heldur var það í eigu suður-afrísku samsteypunnar Bidvest Group sem er metið á 8,4 milljarða dollara og er númer 1.062 á lista bandaríska tímaritsins Forbes yfir 2.000 stærstu fyrirtæki heims. Þetta eru semsagt störfin sem heimamenn áttu að hafa glatað, störf hjá suður-afrískri alþjóðasamsteypu. Það var ekki fyrr en á árinu 2018 sem Bidvest Group seldi Namsov til namibíska fyrirtækisins Tunacor.
Ekki boðlegur málflutningur
Fram til ársins 2012 voru uppsjávarveiðar í Namibíu nær eingöngu í höndum tveggja fyrirtækja, Namsov og Erongo, sem voru lengst af bæði í eigu Suður-Afríkumanna. Hlutur heimamanna í namibískum sjávarútvegi jókst fyrst eftir að breytingar urðu á reglum um úthlutun á árunum 2011-2012 þegar aflaheimildir voru teknar frá gömlu suður-afrísku fyrirtækjunum. Það var eftir að félög tengd Samherja og fleiri erlend útgerðarfyrirtæki hófu starfsemi í namibískum sjávarútvegi.
Að þessu virtu er það ekki boðlegur málflutningur hjá Helga Seljan að flytja ítrekað þau ósannindi að Namibíumenn hafi glatað störfum í namibískum sjávarútvegi eftir að félög tengd Samherja hófu starfsemi í landinu.
Sagt er að þessar harðorðu yfirlýsingar séu til marks um að Samherjamenn ætli ekki lengur að láta þögnina duga sem viðbrögð við þeim ótal alvarlegu ásökunum sem bornar eru á fyrirtækið og forystumenn þess nær daglega nú um stundir.
Þar á bæ telja menn að langt sé frá því að öll sagan hafi verið sögð og heilmiklar bombur eigi eftir að líta dagsins ljós. Mesta skriðan sé yfirstaðin og nú sé að púsla saman heildarmyndinni, ná áttum og svara fyrir sig. Sú mynd, sem dregin hafi verið upp af gangi mála, sé ekki í samræmi við raunveruleikann.
Hvort þetta er rétt, mun tíminn leiða í ljós. En eitt er víst, að það gætu verið spennandi tímar framundan.