Þórdís greinilega á því að formennska Bjarna sé komin á síðasta söludag

Össur Skarphéðinsson fv. utanríkisráðherra.

„Skap mitt mildast með árunum en það fauk í mig þegar ég kom síðla dags heim á Vestó og renndi yfir drottingarviðtal við varaformann Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaði Helga Magnússonar,“ segir Össur Skarphéðinsson, fv. formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, í fjörlegri stjórnmálaskýringu sem hann birtir á fésbókinni.

„Ég geri engan ágreining við þá skoðun Þórdísar Kolbrúnar, sem berlega birtist í viðtalinu, að formennska Bjarna Benediktssonar í Sjálfstæðisflokknum sé komin á síðasta söludag.  En öðru vísi er ekki hægt að skilja viðtalið. Það hefði allt eins mátt birta undir fyrirsögninni: „Ég er í framboði.“ 

Þórdís Kolbrún er bersýnilega að staðfesta sögusagnir fjölmiðla um að formannskjör er framundan í Sjálfstæðisflokknum.

Orkupakkaræfillinn hefur orðið Sjálfstæðisflokknum miklu snúnari en efni stóðu til. Þórdís Kolbrún hefur öðrum fremur borið hann fram af elju og ástríðu. Fyrir einbeitta málafylgju við þann ræfil allra ræflna hefur varaformaðurinn uppskorið pústra og lamstur veðra. Þau hafa fyrst og fremst blásið úr Hádegismóum. 

Össur segir Fréttablað Helga Magnússonar tromma upp framboð Þórdísar.

Í því ljósi er kanski skiljanlegt að Þórdís Kolbrún vilji skilgreina sig upp á nýtt fyrir flokksmönnum í ljósi þeirrar formannskosningar sem hún telur greinilega að verði á dagskrá næsta landsfundar. Sá fundur virðist geta brostið á fyrr en ætlað var miðað við hversu ráðherranum virðist liggja á og vísast veit það enginn betur en forysta flokksins,“ segir Össur.

Hann segir viðtalið í Fréttablaðinu eins og teiknað eftir forskrift útspekúleraðra PR-mógúla. Ráðherrann brosi í allar áttir einsog vera ber.

„Það gera þeir eðlilega sem eru að fara í stærsta framboð ævi sinnar.
Meginboðskapur viðtalsins er þríþættur: Í fyrsta lagi að upplýsa lesendur um að Þórdís Kolbrún á heima alls staðar í flokknum. Hún á þar vini og stuðningsmenn á hverjum paldri. Í öðru lagi að hún hafi verið góður ráðherra. Í þriðja lagi er viðtalið hallærisleg tilraun til að friðmælast við andskota hennar í Hádegismóum sem alla daga djöflast á henni fyrir ræfilstuskuna sem ekkert er, orkupakka 3. Naktara getur framboðsviðtal varla verið,“ bætir hann við.

Undir lokin skýrir Össur þó ástæður gremju sinnar, þar sem hann telur Þórdísi Kolbrúnu reyna að ræna heiðrinum af EES-samningnum af Jóni Baldvin Hannibalssyni, með því að segja í viðtalinu að Sjálfstæðisflokkurinn hafi leitt Ísland inn í það samstarf undir forsæti Davíðs Oddssonar.

„Á semsagt að ljúga sögulega forystu um EES af Alþýðuflokknum og Jóni Baldvin til að kaupa frið við versta kvalara kandídatsins?  Heldur hún virkilega að ritstjóri Moggans, þrátt fyrir allt, sé þeirra sanda og sæva að lúta að slíku?

Það kann vel að vera að nú um stundir sé til vinsælda fallið að níða skóinn niður af hinum aldna leiðtoga, JBH. 

Lægara sökkva þó forystumenn Sjálfstæðisflokkurinn varla en reyna að stela af honum EES-samningnum,“ segir Össur Skarphéðinsson.