Samtöl eiga sér nú stað milli stjórnarflokkanna um myndun nýrrar ríkisstjórnar, eftir brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem verður formlega á morgun, er hún beiðist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt á fundi með forseta Íslands á Bessastöðum.
Sjálfsagt og eðlilegt þykir að Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Vinstri græn, freisti þess að halda stjórnarsamstarfi áfram, en það er þó ekki sjálfgefið að það takist. Í herbúðum Sjálfstæðisflokksins er bent á að VG án Katrínar sé allt annað mál en með hana innanborðs og í Framsóknarflokknum er lögð áhersla á að forsætisráðuneytið komi í hlut Sigurðar Inga Jóhannssonar.
Hin formlega staða er þessi: Við brotthvarf Katrínar er fyrsti staðgengill hennar Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra. Að öllu óbreyttu tekur hann við því embætti á morgun á ríkisráðsfundi, hvort sem það er tímabundið í nokkurs konar starfsstjórn eða út kjörtímabilið.
Tilfinningaflækjur í Valhöll
Ef Framsókn og Vinstri græn hafa athugasemdir við það, er ekki víst að Sjálfstæðisflokkurinn telji grundvöll fyrir frekara samstarfi. Þar á bæ hefur óformlega verið horft til annarra kosta um myndun meirihluta undanfarna daga, t.d. með aðkomu Viðreisnar eða hluta þingmanna Flokks fólksins.
Evrópusinnuð Viðreisn fengi þannig kost á því að „koma heim“ ef svo má segja, en það þarf að leysa úr ýmsum tilfinningaflækjum í Valhöll og víðar, ef það ætti að ganga upp. Stjórnmál eru þó list hins mögulega og þarna gæti Viðreisn gefist langþráð tækifæri til að skipta aftur einhverju máli í íslenskum stjórnmálum.
Eins og gerist í slíkum aðstæðum, freistar forysta bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þess að fá sem mest úr þeim takmörkuðu spilum sem þó eru á hendi. Þannig sagði Sigurður Ingi Jóhannsson í gær, að kannski væri bara best að kjósa nú og stokka upp spilin. Vitað er að enginn stjórnarflokkanna er í reynd spenntur fyrir kosningum og nægir að benda á nýjan Þjóðarpúls Gallup frá í vikunni því til staðfestingar, þar sem flokkarnir þrír fengu minna samanlegt en Samfylkingin. Athygli vakti þar algjört fylgishrun Framsóknarflokksins, sem ekki hefur hjálpað við að sannfæra aðra um kosti þess að hann fái nú forsætisráðuneytið í sinn hlut.
VG vill svigrúm fyrir nýja forystu
Vinstri græn vilja gjarnan halda samstarfinu áfram; fá ráðherra í stað Katrínar og svigrúm til að velja nýja forystu til framtíðar.
Lendingin gæti verið að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, verði forsætisráðherra –– ákveði Bjarni Benediktsson að líta til fordæmis Katrínar og leggja grunn að eigin brotthvarfi úr stjórnmálunum.
Loft er lævi blandið í íslenskum stjórnmálum, plottað í bakherbergjum og víðar og brýr byggðar milli manna og flokka.
Miðflokkur og Samfylking fylgjast með úr fjarlægð, enda hafa báðir flokkar notið þess ríkulega að ríkisstjórnarflokkarnir engist um í samstarfi sínu. Á engan hátt þjónar það hagsmunum fólks þar á bæ við þessar aðstæður, að ganga til liðs við ríkisstjórnina og lengja þannig líftíma hennar.
Píratar hafa hins vegar týnt erindi sínu, að því er virðist, og ósmekklegar tilraunir þeirra í gær til að varpa skugga á brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur með því að gera sjálfsögð biðlaun hennar tortryggileg, auka ekki tiltrú annarra stjórnmálamanna í þeirra garð. Var þar raunar ekki úr háum söðli að detta.