Útvarpsmaðurinn og tónlistarmaðurinn Þorgeir Ástvaldsson er meðal vinsælustu fjölmiðlamanna þjóðarinnar. Rödd sem allir Íslendingar þekkja, enda fastamaður í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni um árabil og þar á undan fyrsti dagskrárstjóri Rásar 2.
Að ógleymdum tónlistarferlinum, því Þorgeir var lengi í Sumargleðinni og hefur sungið perlur sem lengi munu lifa með þjóðinni, á borð við: „Ég fer í fríið“.
En nú er Þorgeir hættur á öldum ljósvakans og er þar skarð fyrir skildi. Framsóknarmenn í Reykjavík fagna þó óvæntum liðsauka, því þegar rýnt er í framboðslista flokksins sem spáð er góðu gengi í kosningunum eftir fáeinar vikur, kemur í ljós að Þorgeir er þar á lista, í 39. sæti.
Líklegt má telja að fjölmiðlareynsla frambjóðandans, þótt neðarlega sé á lista, muni gagnast framboði Einars Þorsteinssonar og félaga vel á næstu dögum…