Þrátt fyrir tal um annað, hefur greinilega ekkert breyst í orkumálunum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson formaður VG.

Ný (eða nýendurnýjuð) ríkisstjórn er ekki orðin vikugömul fyrr en ágreiningur milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna er enn á ný kominn fram — nú í orkumálum. Með aðsendri grein í kvöld mótmælir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og nýr formaður Vinstri grænna, ummælum sem forystumenn Sjálfstæðisflokksins létu falla á fundi um liðna helgi og undirstrikar að það hefur greinilega ekkert breyst í ágreiningi stjórnarflokkanna um stór mál, enda þótt öðru sé haldið fram.

„Við gerum ekki málamiðlanir út frá grundvallarsannfæringu okkar og við erum ekki til í og ég var aldrei til í að ræða um ríkisstjórn nema hún forgangsraði þessum stóru mikilvægu málum,“ sagði Bjarni Benediktsson á fundi á Hilton-hótelinu sl. laugardag og tiltók þau þrjú mál sem mestu skipti; útlendingamál, orkumál og ríkisfjármálin.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, hjó í sama knérunn og sagði: „Við þurfum ekki flóknara regluverk, við þurfum miklu, miklu einfaldara regluverk. Við þurfum ekki fleiri áætlanir um minni losun, við þurfum græna orku. Og mikið af henni, strax.“

Þessi ummæli formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins hafa ekki vakið mikla lukku meðal Vinstri grænna, sem hafa lagt áherslu á náttúruvernd og talað gegn frekari virkjunum, nema þá til orkuskipta. Ekki hefur verið stemning innan flokksins fyrir áformum um aukna græna orku til frekari verðmætasköpunar, heldur ætti fremur að vinna með þá orku sem þegar er fyrir hendi.

Ósammála áherslu á aukna orkuöflun

Til að undirstrika þetta, skrifar Guðmundur Ingi grein á Vísi í kvöld, sem Vinstri græn hafa þegar kostað til birtingar á samfélagsmiðlum, svo mikið liggur greinilega við. Þar segir hann:

„Orðræðan í samfélaginu um orkumál hefur tekið breytingum á undanförnum misserum. Hún gengur sífellt meira út á að það eina sem þurfi til að ná árangri í loftslagsmálum sé aukin orkuöflun, í miklu mæli og helst án tafar. Þessu er ég ósammála enda um mikla einföldun að ræða. Loftslagsmál ná til mun fleiri þátta en orkuöflunar, auk þess sem taka þarf ríkt tillit til bæði faglegra sjónarmiða og náttúruverndar við alla orkuöflun.

Einfaldasta leiðin til aukinnar orkuöflunar er að spara orku í kerfinu sem nú þegar er til staðar. Önnur leið væri að nýta orku sem hugsanlega gæti losnað um hjá stórnotendum. Ef hins vegar er ráðist í nýjar virkjanir þarf að tryggja að orka úr þeim sé nýtt til innlendra orkuskipta.“

Guðmundur Ingi, sem er fv. framkvæmdastjóri Landverndar og með meistaragráðu í umhverfisfræðum, bætir svo við:

„Þegar horft er til mögulegrar nýrrar orkuöflunar þá er lykilatriði að fylgja faglegum ferlum. Þessi faglega nálgun er tryggð í lögum líkt og í öðrum löndum, þ.m.t. lögum um rammaáætlun, umhverfismatslöggjöfinni, skipulags- og mannvirkjalögum og lögum um stjórn vatnamála. Það er stefna núverandi ríkisstjórnar, eins og fram kemur í stjórnarsáttmála, að viðhafa faglega nálgun í orkumálum sem og öðrum mál, og engin breyting hefur orðið á því. Það hefur hins vegar verið rætt að skoða hvort ferlar geti verið skilvirkari þegar kemur að virkjunum án þess að gefa afslátt af faglegri nálgun. Engar slíkar tillögur hafa þó komið fram síðan ég lagði fram frumvarp á Alþingi um ný heildarlög um umhverfismat sem samþykkt var árið 2021.“

Svo mörg voru þau orð. Síðasta setningin auglýsir kannski aðgerðaleysi núverandi umhverfis- og orkumálaráðherra í málinu, hvort sem það var tilgangur formanns VG eða ekki.

En þeir sem væntu þess að nú yrði allt sett á fullt í orkumálunum, geta gleymt því miðað við tóninn frá VG í kvöld. Það hefur greinilega ekkert breyst…

Fjölmenni kom saman á fundi sjálfstæðismanna á Hilton um helgina.