Þrír atvinnuvegir gerðir að bótaþegum — það er hættuleg þróun

Ingvar Smári Birgisson, formaður SUS.

Núverandi ríkisstjórn er á mjög hættulegri vegferð með hinu nýja fjölmiðlafrumvarpi, segir Ingvar Smári Birgisson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og lögmaður.

„Verði fjölmiðlar háðir stuðningi skattgreiðenda munu þeir aldrei sleppa takinu á þeim stuðningi. Um er að ræða ráðstöfun sem er komin til að vera og verður langlífari en við öll,“ bætir hann við.

Ingvar Smári segir að þetta virðist vera hluti af stærri þróun.

„Þessi ríkisstjórn hefur gert íslenska bókaútgáfu að bótaþegum og nú er sjónum beint að fjölmiðlum og innanlandsflugi. Ef hver einasta ríkisstjórn gerir þrjá atvinnuvegi að bótaþegum á hverju kjörtímabili þá verðum við blessunarlega öll orðin bótaþegar innan skamms, yljandi okkur í hlandvolgu fangi ríkisins.

Til skemmri tíma kunna ráðstafanir að þessu tagi að virka skynsamlegar. Þær skila sjáanlegum árangri og bæta rekstrartölur. Til lengri tíma þyngja þær byrðina á skattgreiðendum, draga úr nýsköpun og skapa óeðlilegt samband atvinnuvega og ríkisins. Fáir græða en margir tapa,“ segir hann.