Þrír fv. yfirmenn Icelandair álitsgjafar um WOW air

Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja.

Kallinn á kassanum skrifar:

Það er gömul saga og ný að umræðan á Íslandi markast af smæð samfélagsins og tengingum út og suður. Við þekkjumst mörg innbyrðis, erum tengd fjölskylduböndum, gengum saman menntaveginn, erum með börn saman í skóla eða á íþróttaæfingum og þannig mætti áfram telja.

Það verður hins vegar að segjast eins og er, að það er svolítið skrítið að þrír helstu álitsgjafar fjölmiðla undanfarna daga um erfiða stöðu WOW air séu þrír fyrrverandi forstjórar samkeppnisaðilans Icelandair.

Þeir Steinn Logi Björnsson (sem var framkvæmdastjóri hjá Icelandair), Jón Karl Ólafsson og Björgólfur Jóhannsson (maður veltir fyrir sér hvers vegna Birkir Hólm Guðnason hefur ekkert blandað sér í málin) eru allt prýðilegir menn og þekkja vel til þessa bransa, en þeir eru samt óhjákvæmilega litaðir af sínum fyrri störfum.

Steinn Logi gaf í skyn í viðtölum á dögunum að kennitölu WOW air væri ekki viðbjargandi og furðulegt væri að Icelandair væri yfir höfuð að velta því fyrir sér, Jón Karl sagði í gær að hann hefði enga trú á því að kröfuhafar á borð við leigusala flugvéla væru til í að fella niður kröfur fyrir hlutafé — en nú liggur fyrir samkomulag allra helstu kröfuhafa um einmitt það.

Líka miklir erfiðleikar hjá Icelandair

En þá kemur Björgólfur Jóhannsson til leiks í morgun og gagnrýnir Samgöngustofu fyrir að hafa ekki verið fyrir löngu búin að svipta WOW flugrekstrarleyfinu.

(Hann er ekki aðeins fv. forstjóri Icelandair, hann er líka stjórnarformaður sjálfrar Íslandsstofu, sem hefur með höndum mikilvægt hlutverk í ferðaþjónustu landsmanna).

Vissulega er rétt að WOW hefur farið glannalega og tapað miklum peningum. Ekki einu sinni Skúli Mogensen reynir að mæla því í mót. En það vill bara svo til að Icelandair er líka búið að vera í erfiðum rekstri. Ásamt fjölmörgum flugfélögum á alþjóðavísu. Ljóst er að fyrsti ársfjórðungur 2019 verður verri en afleitur sami fjórðungur í fyrra og félagið er í stórkostlegri krísu út af MAX-vélunum sínum.

Það eru miklir hagsmunir fyrir Íslendinga að tvö flugfélög í innbyrðis samkeppni séu starfrækt hér á landi. Ef Skúla tekst hið ómögulega, að koma WOW fjárhagslega fyrir vind, er óhjákvæmilegt að athyglin beinist aftur að vandræðum Icelandair.

Varla þætti þá viðeigandi að kalla bara til leiks fólk frá WOW til að spá í spilin, eða hvað?