Það er þungt hljóðið í Davíð Oddssyni, fv. forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag, enda aðeins tveir dagar þar til Alþingi hyggst leiða í lög innleiðingu þriðja orkupakkans.
Davíð segir að það sé í reynd djúpríkið, eins og það hefur verið kallað, eða „kerfið“ sem í raun stjórni Íslandi í krafti óvenjulega veikrar stjórnmálastéttar og það færi landið sífellt nær inngöngu í ESB, þar sem svikist hafi verið um að afturkalla aðildarumsókn með réttmætum og sjálfsögðum hætti.
„Þvert ofan í allt sem sagt var við ákvörðun um inngöngu í Evrópska efnahagssvæðið hafa íslensk yfirvöld þegar þverbrotið öll loforð sem þau gáfu um að virða umhverfi íslensks landbúnaðar og galopna hann ekki fyrir ESB. Sú braut hefur verið opnuð án þess að þjóðin hafi verið spurð. Nú er verið með skýlausu broti á íslensku stjórnarskránni að færa eina meginauðlind landsins, einstæða orku þess, undir endanlegt „boðvald ESB“ eins og formaður Sjálfstæðisflokksins orðaði það á Alþingi áður en hann snerist eða var snúið um heilan hring.
Og þá er aðeins eftir að meðhöndla sjávarútveginn með sama hætti. Og því skyldi honum hlíft eftir önnur afrek? Og þar með er hægt að draga umsóknina vondu óafturkallaða upp úr skúffunum enda þá orðið formsatriði eitt að klára hana,“ skrifar Davíð.
Illa farið með góð tímamót
Davíð Oddsson er einn sigursælasti, ef ekki sigursælasti formaður í sögu Sjálfstæðisflokksins. Hann segir tímann tákn að fagnað sé hundrað ára fullveldi og níutíu ára Sjálfstæðisflokki með því að stíga stór skref til hátíðarbrigða til að vega að þessu tvennu.
„Það eru aðeins ein rök færð fram fyrir því að Alþingi verði að samþykkja orkupakkann þriðja. Aðeins ein rök. Þau eru að það muni setja EES-samninginn í algjört uppnám ef málinu verði hafnað og engu breyti þótt sú höfnun sé í fullu samræmi við samninginn sjálfan. En það er ekki aðeins svo að slík höfnun sé í samræmi við samninginn sjálfan. Það að hún sé fullkomlega heimil er í raun forsenda þess að samningurinn var gerður og að það var stætt á því að gera hann. Þetta er eins augljóst og verða má.
Ef Ísland gæti ekki hafnað tilskipunum frá Brussel og yrði að samþykkja þær þvert gegn vilja þjóðarinnar, þá þýddi það að Ísland hefði flutt löggjafarvald sitt úr landinu. Allir á Alþingi vissu, þeir sem samþykktu: Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur. Þeir sem sátu hjá: Sjö þingmenn Framsóknarflokksins undir forystu varaformannsins Halldórs Ásgrímssonar, þeir sem sögðu nei, átta þingmenn Framsóknarflokks undir forystu formannsins Steingríms Hermannssonar og allir þingmenn Alþýðubandalags og Kvennalista, að hefði Ísland ekki virkt neitunarvald gagnvart tilskipunum og réði því eitt hvort þær yrðu leiddar í lög eða ekki, þá hefði löggjafarvald landsins verið flutt úr landi.
Meira að segja vitlausustu gervikennimenn í lögfræði í HR gætu ekki haldið því fram að slíkt stæðist stjórnarskrá. Gerðu þeir það ættu þeir að hefja lagakennslu í Grænuborg, en hætt er þó við því að jafnvel óvitarnir þar myndu horfa á slíka furðu lostnir. Það voru jú börnin sem könnuðust fyrst við að keisarinn var klæðalaus.
Það er forvitnilegt að lesa hvernig snillingurinn A.E. Pritchard lýsir Evrópusambandinu og lítt sýnilegri snertingu þess við lýðræðið sem það á svo grátlega litla samleið með. Ekki er þó líklegt að þeir sem eru að svíkja sjálfa sig, flokkinn sinn og mikinn meirihluta hans þessa dagana muni hafa fyrir því.
En kannski munu þeir láta launaða spunameistara, launaða af ríkinu, taka saman fyrir sig talpunkta, einungis til útúrsnúninga, til að halda sér á floti í fáeinar vikur.
Allt er þetta þyngra en tárum tekur.
Trúverðugleikinn fer og þar með flest.
Það kennir Icesave.
Lexían ljóta.“