Þurfum við að byggja alls staðar sömu íbúðablokkina?

Vitaborg er uppbyggingarsvæði í miðborg Reykjavíkur sem afmarkast af Laugavegi í suðri, Skúlagötu í norðri, Barónsstíg í austri og Vitastíg í vestri.Þar eru nú að koma fjölmargar íbúðir í sölu þessa dagana.

Hugleiðing dagsins er í boði náttúruvísindamannsins, rithöfundarins og alþingismannsins fyrrverandi, Arna Trausta Guðmundssonar, sem undrast margt í stefnu borgaryfirvalda um þéttingu byggðar, ekki síst einsleitni bygginganna sem rísa nú hvarvetna og virðast allar eins eða byggðar á sama meginstefinu.

Ari Trausti kveðst á fésbókinni vera áhugamaður um húsagerð og umhverfi og hann hafi lengi undrast þessa þróun og löngu sé kominn tími til að nákvæmlega þessi gerð fjölbýlishúsa tilheyri fortíðinni að mestu leyti.

„Í Reykjavík, Kópavogi og Mosfellssveit eru til dæmis nú orðið hundruð bygginga risnar með þessu sama meginútliti: Kassalaga með útskotum (eða án þeirra), svipaðri litasamsetningu álklæðningar, álíka gluggasetningu, svölum (gjarnan glerjuðum) og flötu þaki og inndreginni efstu hæð,“ skrifar hann og bendir á að þetta gildi ekki um nokkrar húsasamstæður hér og þar, heldur líka heilu hverfin.

„Í heild er þetta ótrúleg fábreytni og raunar liggur við að kalla þetta óhóflega fjölritun,“ bætir Ari Trausti við og í tilefni áforma um mikil áform um byggingu fjölbýlishúsa við Birkimel í stað bensínstöðvar sem þar er nú við Hótel Sögu og Þjóðarbókhlöðuna bendir hann á að þar hljóti að vera hægt að horfa betur til einkenna Mela og Haga og vinna úr þeim. Bæði hverfin séu langt í frá jafn einsleit og „legókassahúsin“ sem hann kallar svo, sem safnyrði fyrir áralangan afrakstur fjölbýlishúsa sl. 10-15 ára á höfuðborgarsvæðinu.

Tekið skal undir hvert orð og við bætt, að mörg eldri fjölbýlishús borgarinnar eru dæmi um frábæran arkitektúr með mannlegu umhverfi, en nú virðist byggt ofan í þungar umferðargötur og útsýni margra aðeins fáeinir metrar yfir í næstu íbúð. Er það draumur okkar allra að búa svo?

Ari Trausti Guðmundsson fv. alþingismaður.