Tilefnislítil sjálfshátíð

Þær samgöngubætur sem formaður Framsóknarflokksins og ráðherra innviða- og samgöngumála vill og segist ætla að standa fyrir á næstu árum eru jafn metnaðarfullar og þær eru óraunhæfar. Fagurgalinn um tugmilljarða uppbyggingu er sérstaklega ótrúverðugur á tímum verðbólgu og himinhárra vaxta sem venjulegt fólk finnur vel fyrir á eigin skinni um þessar mundir. Þetta veit Sigurður Ingi Jóhannsson auðvitað vel, en lofar engu að síður byltingu í samgöngumálum að því er virðist á nokkurra vikna fresti, nú síðast í Bítinu í morgun.

Sigurður Ingi er auðvitað ekki eini stjórnmálamaðurinn sem lofar hlutum sem hann veit að hann getur aldrei staðið við. En það er eitthvað sérstaklega smekklaust við það að lofa ævintýralegum útgjöldum á sama tíma og ríkisstjórnin og Seðlabankinn hvetja heimilin til þess að halda að sér höndum og launafólk til að semja um hóflegar launahækkanir við kjarasamningsborðið í vetur.

Kjaftavaðall og keisarans nekt

Þingmenn stjórnarandstöðunnar, einkum Miðflokks og Viðreisnar, eru dugleg við að benda á að keisarinn er nakinn við ríkisstjórnarborðið. Sama segja margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í einkasamtölum. Ekkert er heldur að finna í dagskrá þingsins sem speglar þá stöðu sem uppi er í efnahagsmálum þjóðarinnar. Engin mál koma frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar og fyrir þingið. Ekkert plan. Bara umbúðir og kjaftavaðall, en lítið fer fyrir innihaldi og alvöru aðgerðum.

Þótt vilji Sigurðar Inga standi eflaust til þess að létta landsmönnum lífið við akstur um vegi landsins, er veruleikinn einfaldlega sá að það eina sem þessi ríkisstjórn virðist ætla að keyra á er tilefnislítil sjálfshátíð – og kannanir benda allar í þá átt að almenningur hafi ekki smekk fyrir hátíðarhöldunum…