Tilfinningalega er þriðji orkupakkinn á pari við Icesave

Guðni Ágústsson fv. ráðherra. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og landbúnaðarráðherra, minnir á það í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, að Ísland sé komið yfir hrunið mikla á flest­um sviðum en sárs­auki þess harm­leiks búi þó enn í hjört­um þjóðar­inn­ar. Og því beri stjórn­mála­mönn­um að vinna með öðrum hætti en nú er gert og þeim beri að efla traust og trúnað við fólkið í land­inu og ekki síður það að orð standi.

„Svik eru mjög illa séð á orðum og gjörðum og al­menn­ing­ur er dóm­h­arður í garð stjórn­mála­manna og kröfu­h­arður einnig um dreng­lyndi. Það er galið að gengið sé á gef­in lof­orð og stefnu­mark­andi álykt­an­ir flokks­fé­lag­anna. Svo kem­ur þriðji orkupakk­inn eins og „upp­vakn­ing­ur“ sem send­ur er rík­is­stjórn­inni og flokk­um henn­ar til höfuðs. Eng­inn taldi að ógn stafaði af hon­um því leitað yrði und­anþágu þar sem æðstu stofn­an­ir bæði Sjálf­stæðis- og Fram­sókn­ar­flokks­ins höfðu ályktað, að menn töldu, gegn inn­leiðingu hans og for­menn flokk­anna og marg­ir þing­menn og ráðherr­ar flokk­anna talað með þeim hætti að inn­leiðing væri ekki á dag­skrá.

Hvað varðar Vinstri græn töldu menn að upp­haf þeirra væri svo bundið nátt­úru Íslands að þar yrði fyr­ir­staða en það er sjald­gæft og und­an­tekn­ing ef fram kem­ur rödd þar sem and­mæl­ir. Svo ger­ist það eins og hendi sé veifað að þing­menn rík­is­stjórn­ar­flokk­anna taka þessa ein­beittu ákvörðun, koma sam­an eft­ir að hafa landað kjara­samn­ing­um við verka­lýðshreyf­ing­una og setja stefn­una á að klára orkupakk­ann, einn tveir og þrír. En fyr­ir­staðan varð meiri en for­ingj­ana grunaði og enn við lok umræðu á Alþingi í sum­ar var staðan sú að í öll­um stjórn­ar­flokk­un­um var meiri­hluti gegn inn­leiðingu hans og stór meiri­hluti flokks­manna Fram­sókn­ar og Vinstri grænna. Og í land­inu öllu vel yfir 60% þjóðar­inn­ar. Til­finn­inga­lega er málið á pari við Ices­a­ve,“ segir hann.

Skaði en sjálf­skap­ar­víti

„Í Biblí­unni kem­ur sauðahirðir­inn oft við sögu, hann gæt­ir hjarðar sinn­ar. For­menn flokk­anna eru ekk­ert annað en sauðahirðar sem eiga að gæta hjarðar sinn­ar, þeir eiga ekki hjörðina, hjörðin hef­ur valið for­ingj­ann til verka fyr­ir hug­sjón­ina. Þeir hafa ekki leyfi til að reka hjörðina yfir vaðið í ólg­andi vatna­vöxt­um þar sem ljóst er að hluti henn­ar ferst eða yf­ir­gef­ur flokk­inn og for­ystu­menn­irn­ir missa traust. Þeir verða að hinkra, bíða af sér veðrið.

Það er auðvelt að segja að hver stjórn­mála­maður sé bund­inn sinni sann­fær­ingu. En þegar þeir skipta um sann­fær­ingu verða rök­in að vera klár. Flokk­arn­ir hafa hvergi komið fram með rök sem sann­færa þá ólg­andi óánægju sem nú skek­ur rík­is­stjórn­ar­flokk­ana. Og þeirra sér­fræðing­ar eru ekk­ert fremri þeim sem mæla gegn orkupakk­an­um. Svör stjórn­mála­flokk­anna og for­ystu­manna þeirra eru hald­laus, þau hljóma á þessa leið: „Þetta skipt­ir engu máli fyr­ir okk­ur, þetta er mik­il­vægt mál en skipt­ir engu, en EES-samn­ing­ur­inn er í hættu ef við ekki inn­leiðum samn­ing­inn, EES-samn­ing­ur­inn er besti samn­ing­ur sem Ísland hef­ur gert.“ Það kann að vera að ESB hóti enn litla Íslandi eins og það lem­ur á Stóra-Bretlandi í Brex­it. Ef þing­menn hafa sann­fær­ingu fyr­ir því að snú­ast í hring í mál­inu bar þeim og ber að ganga fram og segja við höf­um skipt um skoðun í fyrsta lagi, í öðru lagi, í þriðja lagi, og rekja ástæðurn­ar. Það þýðir ekk­ert að ganga fram og segja að and­stæðing­ar orkupakk­ans séu mataðir frá Nor­egi, miklu frem­ur væri hægt að segja að ESB hefði stillt rík­is­stjórn­inni upp við vegg. 

Kæru for­ystu­menn rík­is­stjórn­ar­inn­ar, Katrín, Bjarni og Sig­urður Ingi! Þið hafið ekki enn sann­fært kjarn­ann í ykk­ar flokk­um um hvert þið eruð að fara og hvers­vegna? Okk­ur mörg­um finnst að ferðinni sé nú heitið út í busk­ann og þið séuð að skapa póli­tíska óvissu fyr­ir Ísland og flokk­ana ykk­ar, okk­ar. Við ótt­umst að þessu fylgi enn al­var­legri af­leiðing­ar því slík er andstaðan við þenn­an þriðja orkupakka að kannski fer rík­is­stjórn­in eins og all­ar hinar eft­ir hrun, beint út í fúa­mýri í kosn­ing­um eft­ir tvö ár, skaði en sjálf­skap­ar­víti,“ segir Guðni.