Tvennt eiga allir íslenskir vinstri menn sameiginlegt

Brynjar Níelsson fv alþingismaður.

„Tvennt eiga allir íslenskir vinstri menn sameiginlegt en það er sú sannfæring að íslenskt samfélag fari á hliðina ef aðrir en ríkisstarfsmenn selji okkur áfengi og miðli efni á ljósvakanum,“ segir Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í færslu á fésbókinni.

„Þess vegna fóru þeir á límingunum þegar Þorsteinn Víglundsson vogaði sér að leggja fram frumvarp sem heimilar öðrum en ríkisstarfsmönnum að selja einnig áfengi í sérverslunum. Flestir dustuðu rykið af gamalkunnum frösum, sem notaðir voru þegar leyfa átti sölu bjórsins, að áfengissýkin myndi herja á okkur aldrei sem fyrr, sem og almennt heilsuleysi,“ segir hann.

Brynjar bendir þó á að varaþingmaður Vinstri grænna, lögreglufulltrúinn Fjölnir Sæmundsson, hafi verið mjög heiðarlegur í umræðunni.

„Kannski vegna þess að hann hefur ekki verið lengi í stjórnmálum, og sagðist vera á móti frumvarpinu að því að hann geti ekki hugsað þá hugsun til enda að aðrir geti hagnast á sölu áfengis, sem er auðvitað hin raunverulega ástæða fyrir andstöðu vinstri manna við frumvörp að þessu tagi,“ bætir Brynjar við.