Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur tekið U-beygju í afstöðu til hvalveiða. Að vísu ekki „hægt og í mjög stórum sveig“ heldur hratt og klúðurslega.
Þetta segir Björn Bjarnason fv. ráðherra á vefsíðu sinni. „Frestun á veiðunum í vor var brot á vandaðri stjórnsýslu. Aðferðin núna þegar beðið er fram á síðasta dag og þá sett íþyngjandi reglugerð um framhald veiðanna er sama marki brennd sé litið til stjórnsýsluhátta.
Þessir „stælar“ ráðherrans við töku ákvarðana í málinu eru illskiljanlegir. Í vor var sköpuð spenna til að slá sér upp meðal andstæðinga hvalveiða en síðsumars til að ganga í augun, með semingi þó, á þeim sem vilja að hvalur sé veiddur,“ segir hann.