Það verður að segjast eins og er, að það er sumpart aðdáunarvert að fylgjast með þeirri umbreytingu sem Kristrún Frostadóttir hefur haft forystu um í Samfylkingunni eftir að hún tók við sem formaður. Öll teikn eru um að verið sé að endursmíða stóran forystuflokk í íslenskum stjórnmálum, að norrænni fyrirmynd, og ekki er gerð nein tilraun til að fara leynt með það.
Sjálf hefur Kristrún margoft viðurkennt að flokknum hafi þurft að breyta úr litlum upphlaupsflokki í breiðfylkingu sem fær væri um að leiða ríkisstjórn og sætta ólík sjónarmið. Hún ítrekaði það á 1. maí fundi í Iðnó í dag, þar sem hún lagði áherslu á skýra stefnu (sem oft er gjörbreyting á fyrri stefnu) og lagði áherslu á að pólitík væri ekki „skyndiupphlaup“, ekki „hávaðafundir“, heldur „markvisst, sleitulaust strit“.
„Það er meðal annars í þessum anda sem við höfum í sameiningu breytt Samfylkingunni. Til að vekja aftur von og trú og til að vinna aftur traust fólksins í landinu. Til að rísa undir ábyrgð okkar og til að ná þeim árangri sem við höfum einsett okkur að ná. Já, við litum í eigin barm. Og saman ákváðum við að fara aftur í kjarnann og ná virkari tengingu við venjulegt fólk, hinn almenna launamann. Þetta höfum við gert,“ sagði hún ennfremur.
Hún benti á að Samfylkingin hafi kynnt stefnu sína í mörgum málaflokkum og undirbúningur kosninga sé samkvæmt áætlun.
„Við tökum engu sem gefnu – en vinnum jafnt og þétt til undirbúnings. Það gerum við í von um annað tækifæri til að uppfylla hlutverk Samfylkingarinnar í þjónustu þjóðar,“ sagði Kristrún og vísaði þar til Samfylkingarinnar sem var forystuafl í formennskutíð Össurar Skarphéðinssonar og Ingibjargar Sólrúnar fram að hruni. En þurrkaðist svo næstum því út eftir forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur.
Hver sagði að þetta ætti að vera auðvelt?
Kristrún benti á að slík umbreyting og áhersla á fá og stór málefni; einfaldari skilaboð, kalli á skipulag og festu; úthald og þolinmæði. „Það reynir á – og er erfitt, ekki síst fyrir baráttufólk í okkar eigin röðum sem er fullt af eldmóði og óþreyju. En hver sagði að þetta ætti að vera auðvelt? Það hefur aldrei verið auðvelt að sameina alþýðu manna, til sigurs. Hitt er miklu auðveldara – að híma í stjórnarandstöðu, með mótmælaspjöldin á lofti, og láta duga að veita aðhald með gagnrýni. Í stað þess að móta samfélagið beint, eins og við viljum gera, með því að leiða stjórn landsmála yfir lengri tíma í ríkisstjórn Íslands, með gildi jafnaðarmennsku að leiðarljósi.“
Þær umbreytingar sem Kristrún kynnti í dag, að áhersla verði að fá fleiri fulltrúa launafólks, en ekki bara skrifstofusérfræðinga á framboðslista flokksins fyrir komandi kosningar, eru allrar athygli verðar og er eitthvað sem Valhöll ætti að skoða alvarlega. Þar hafa menn ítrekað lent í því að kraftmikið og hæfileikaríkt fólk hrökklast undan innanflokksátökum, einkum í Reykjavík þar sem tvær fylkingar eru fyrir á fleti, gráar fyrir járnum. Slíkt fólk fer líka síður í prófkjör, þar sem fyrir eru sitjandi fulltrúar sem engu vilja breyta, þótt breytingar séu eiginlega lífsnauðsynlegar fyrir flokkinn sem heild.
Á árum áður var flokksskrifstofan Valhöll líka ríki í ríkinu, þar sem starfið var skipulagt og línan gefin út um áberandi mál hverju sinni. Þar sem sóknin eða vörnin var markvisst skipulögð. Nú er Valhöll ekki svipur hjá sjón; kjörnir fulltrúar upplifa sig eina á báti þegar móti blæs og almannatengsl snúast fyrst og fremst um viðbragð, sjaldnast frumkvæði eða hönnun atburðarásar.
Að vera með plan
Kristrún hefur sem formaður leitt erfiðar breytingar, sem ekki hafa alltaf mælst fyrir í eigin þingflokki, en hún hefur gert það af því að hún er með plan. Og stuðningur við hana og flokkinn í skoðanakönnunum hefur gert það að verkum, að fulltrúar gömlu Samfylkingarinnar, þeirra sem eru að missa völd sín og áhrif, hafa mátt sín lítils.
„Við erum stolt af breyttri Samfylkingu,“ sagði formaðurinn í dag og lagði áherslu á að flokksmenn þyrftu að leggja á sig mikla vinnu og hafa aga og úthald, til að árangur náist.
„Þar vil ég standa mig í stykkinu. Ég legg minna upp úr leiftrandi retórík og tilþrifum úr ræðustól – sem getur verið að valdi stundum einhverjum vonbrigðum. En mín tilfinning er sú að fólkið sem við viljum þjóna, þorri almennings, geri ekki neina kröfu um hástemmdar ræður eða ljóðræna lýsingu á ástandi í þess daglega lífi – heldur frekar skilning á aðstæðum og skýra áætlun um hvað við ætlum að gera öðruvísi, komumst við í ríkisstjórn; hvernig við viljum breyta við stjórn landsins. Þess vegna skulum við segja minna og gera meira.“
Lokasetninguna má ríkisstjórnin og forysta stjórnarflokkanna taka til sín. Þar hefur orðið þjóðarsport að lýsa yfir öllu mögulegu, en fylgja svo engu eftir. Fólk hefur fyrir löngu séð gegnum þau leiktjöld og fyrir vikið eru allir óánægðir, líka kjósendur þessara flokka, eins og kannanir hafa rækilega sýnt fram á.
Forysta Sjálfstæðisflokksins þarf að standa undir nafni, ekki seinna en strax, eigi flokkurinn að eiga einhverja möguleika á að hafa í fullu tré við Samfylkinguna í næstu kosningum. Innan flokksins er fullt af duglegu fólki með djarfar og flottar hugmyndir, sem ekkert hefur verið gert með í allt of langan tíma.
Þess vegna er staðan sú, að flokkurinn mælist með 18% og hefur aldrei mælst lægri. Í Valhöll ætti að hengja upp skilti, strax í dag, svo allir sjái með einföldum en áhrifaríkum skilaboðum: Ekki gera ekki neitt.