Margt má laga í íslensku þjóðfélagi og sumt er þar átakanlega aðkallandi, en hvatakerfið sem stjórnvöld hafa byggt upp kringum nýsköpunariðnaðinn með ótrúlega góðum árangri er ekki eitt þeirra. Raunar má segja að skattahvatar vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar, sem þróast hafa allt frá árinu 2010, séu einhver best heppnaða tilraun stjórnvalda á seinni árum til að fjölga stoðum efnahagslífsins og því er fremur holur hljómur í þeirri gagnrýni á kerfið sem borið hefur á undanfarið, ekki síst frá opinberum stofnunum.
Þannig vill skatturinn, aldrei þessu vant, herða eftirlit og reglur og OECD vekur athygli á umfangi endurgreiðslna og leggur líka til aukið eftirlit, væntanlega eftir samtal við íslenska embættismenn sem helst efna ekki til nokkurra funda án þess að leggja til stækkun báknsins með einum eða öðrum hætti.
En hvers vegna skyldi athyglin beinast að þessu kerfi? Jú, vegna þess að það virkar mjög vel og hefur orðið til þess að nýsköpun og iðnaður hefur margeflst að burðum á undanförnum árum. Hér á árum áður var mjög varað við einhæfni í atvinnulífinu, en nú er íslenskur iðnaður, t.d. kvikmyndaiðnaður og hugverkaiðnaður, samkeppnisfær við það besta sem gerist annars staðar.
Því ber að fagna. En ekki stökkva til og reyna að finna vankanta á fyrirkomulaginu, enda þótt sjálfsagt sé að farið sé að gildandi reglum.
Endurgreiðslur en ekki styrkir
Það er líka misskilningur að stór hátæknifyrirtæki séu að fá styrki úr ríkissjóði. Þetta eru endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunar og koma til af fjölgun vel launaðra starfa fyrir sérfræðinga og annað háskólamenntað fólk. Starfa sem ekki hefðu orðið til hér á landi, nema vegna þessa sama fyrirkomulags.
Þessi sömu fyrirtæki eru farin að skipta miklu máli þegar kemur að útflutningstekjum þjóðarinnar og þarf ekki að leita lengra en til fyrirtækja á borð Controlant, Marel, Kerecis, Alvotech, Össurar og Nox Medical. Auðvelt er að færa rök fyrir því að skattalegar endurgreiðslur vegna stóraukinna umsvifa þessara aðila, skili sér margfalt baka til þjóðarbúsins.
Vegna þessa kerfis er þröngt skattspor iðnaðarins orðið um 213 milljarðar króna og er það stærst allra útflutningsgreina hér á landi. Til samanburðar nam þröngt skattspor ferðaþjónustunnar 92 ma.kr. og sjávarútvegsins 85 ma.kr. árið 2022, samkvæmt úttekt Reykjavik Economics.
Það eru eiginlega svo merkileg tíðindi, að skrifa mætti um það margar skýrslur. Verstöðin Ísland — stóriðjulandið Ísland er orðið mistöð hátækni- og nýsköpunarfyrirtækja.
Þess vegna er kannski viðeigandi að rifja upp orð frumkvöðulsins Guðmundar Fertram Sigurjónssonar, forstjóra Kerecis, þegar tilkynnt var um söluna á fyrirtækinu í fyrra, sem flokka má sem sannkölluð risatíðindi:
„Umgjörð um nýsköpun á Íslandi er bara best í heimi. Það er hvergi betra að vera nýsköpunarfyrirtæki en á Íslandi.“
Frekari orð ættu eiginlega að vera óþörf. Í öllum bænum lagið það sem laga þarf á Íslandi, nóg er af verkefnum í þeim efnum. En ekki skemma kerfi sem svínvirkar.