Innan verkalýðsfélagsins Eflingar veltir fólk því fyrir sér hvers vegna félagið gerðist aðili að lífskjarasamningunum á almennum vinnumarkaði í fyrra, þar sem áherslan var einkum lögð á aðgerðir fyrir hina lægst launuðu (launahækkanir, skattkerfisbreytingar, húsnæðisáform stjórnvalda, skilyrði til lækkunar vaxta) úr því lítill hluti félagsmanna sættir sig alls ekki við sömu samninga og vill allt önnur launakjör í viðræðum sínum við Reykjavíkurborg.
Félagsmenn í Eflingu eru ríflega 27 þúsund talsins. Aðeins um 1.800 þeirra eru í verkfalli nú, en það er sameiginlegur verkfallssjóður allra félagsmanna sem stendur að baki þeim félagsmönnum sem starfa fyrir Reykjavíkurborg.

Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, sem er nokkurs konar stjórnmálaarmur Eflingar þessi misserin, hélt því fram í umræðum á samskiptamiðlum í gær, að ef opinberir starfsmenn ná einhverju fram í yfirstandandi kjaradeilu sem er umfram lífskjarasamningana, muni það leiða til endurskoðunar þeirra eða nýrra verkfallsaðgerða.
Væntanlega geta samninganefndir Reykjavíkurborgar og ríkisins ekki fengið betri staðfestingu á hættunni á höfrungahlaupi, en með þessum ummælum Gunnars Smára, þótt hann fari reyndar ekki með rétt mál. Það eru engin sjálfkrafa ákvæði í lífskjarasamningunum um hækkanir ef aðrar stéttir semja um betri kjör, heldur er þar að finna almenn endurskoðunarákvæði sem taka til þróunar kaupmáttar, vaxtastigs og hvort aðgerðir ríkisvaldsins í húsnæðismálum voru í samræmi við gefin fyrirheit.
Spurningin hlýtur líka að vera hvað langstærstum hluta Eflingarfólks finnst um það, að forysta félagsins telji lítinn hóp félagsmanna eiga að fá allt önnur og betri kjör en aðrir innan félagsins.

Svarið er líklega að finna í því að vinstri meirihlutinn í borginni hafi verið álitinn vænlegt skotmark í sérhæfðum aðgerðum, ekki síst í pólitískum tilgangi. Og að vinstri sinnuð forysta ríkisstjórnarinnar eigi erfitt með að standast pólitískan þrýsting verði af allsherjarverkföllum þúsunda félagsmanna BSRB sem lama munu samfélagið.
Í fyrra þurfti fall WOW til þess að aðilar næðu jarðtengingu og samningar tækjust. Nú er staðan í efnahagslífinu orðin miklu verri; almennur samdráttur, mörg fyrirtæki í alvarlegum rekstrarerfiðleikum, uppsagnir daglegt brauð og atvinnuleysi vaxandi. Á sama tíma hefur samt tekist að verja stöðugleikann, lækka vexti og viðhalda töluverðri hækkun kaupmáttar.
Eins og sést í svari Gunnars Smára Egilssonar hér að ofan, er klárt að dýrir samningar hins opinbera nú munu væntanlega gera þann ávinning almenns launafólks að engu. Umsamdar launahækkanir munu ganga upp allan skalann, verða að hinu klassíska höfrungahlaupi og allir tapa — ólíkt því sem lagt er upp með.
En kannski myndi fylgi Sósíalistaflokksins taka stökk upp á við. Sem kannski var aðalplanið allan tímann?