Uppgjör Páls Magnússonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins í Morgunblaðinu í dag sætir miklum tíðindum. Hann tekur að sér hlutverk barnsins í sögunni frægu og bendir á að keisarinn sem allir dást að, sé í reynd ekki í neinum fötum. Páll bendir á að í sögulegu samhengi sé staða Sjálfstæðisflokksins afleit og gagnrýnir að flokksmenn láti eins og það sé bara allt í lagi. Þá segir hann að fámennur hópur ráði í reynd öllu í flokksstarfinu og almennir flokksmenn komist þar hvergi að, hvað þá með einhverja alvöru stjórnmálaumræðu eða sjálfsskoðun.
Útspil Páls ber öll þess merki að vera vandlega íhugað útspil. Hann er á útleið sem þingmaður og hefur átt í erfiðum deilum vegna innanflokksátaka í Vestmannaeyjum. En undirtónninn í grein hans er sá, að tími sé kominn á uppgjör og mannabreytingar í forystu flokksins.
Þetta er í grunninn samskonar málflutningur og margir harðir stuðningsmenn utanríkisráðherrans Guðlaugs Þórs Þórðarsonar hafa haft uppi undanfarnar vikur. Að það sé kominn tími á breytingar í Sjálfstæðisflokknum og óþolandi sé að sitja sífellt undir spillingartali. Ímynd flokksins sé löskuð, meðal annars vegna rangra ákvarðana og það sé greinilega álit þjóðarinnar, hvort sem það er sanngjarnt að öllu leyti eða ekki.
Greinilegt er, að Guðlaugur Þór ætlar sér stærri hluti á komandi misserum og því má búast við að fleiri gagnrýnisraddir komi nú fram innan flokksins og viðri skoðanir sínar. Á móti kemur að valdakjarninn er enn þeirrar skoðunar, að fyrr frjósi í víti en Guðlaugur og hans fólk taki við völdum í Valhöll…