Úrelt löggjöf: Mikilvægasti drifkrafturinn í samkeppni eru lítil og millistór fyrirtæki

Hermann Guðmundsson forstjóri.

Hermann Guðmundsson, eigandi og framkvæmdastjóri Kemi og fv. forstjóri N1, var undrandi á málflutningi Gylfa Magnússonar, fv. ráðherra og stjórnarformanns Samkeppniseftirlitsins á Sprengisandi á Bylgjunni í gærmorgun og setti af því tilefni nokkur orð inn á fésbókina sína.

Hermann segir að skilja hafa mátt Gylfa á þann veg, að hann telji að nánast allir atvinnurekendur væru líklegir til að stunda ólögmætt samráð ef þeir rekast hver á annan á mannamótum.

„Sjálfur hef ég rekið fyrirtæki með 2, 10, 70, 250, 430 og yfir 1.000 starfsmönnum.

Aldrei hef ég heyrt neinn starfsmann stinga uppá ólöglegu samráði með samkeppnisaðila. Aðeins einu sinni fannst mér utanaðkomandi aðili vera að þreifa fyrir sér um slíkt án árangurs.

Mitt mat á samkeppnismálum er það að eingöngu ætti að fella þau félög undir þann málaflokk sem velta 5 milljörðum og meira eða hafa verið úrskurðuð markaðsráðandi.

Mikilvægasti drifkrafturinn í samkeppni eru lítil og millistór fyrirtæki sem eru að keppa við þau stóru. Þessi fyrirtæki forðast að kaupa önnur álíka fyrirtæki í hagræðingarskyni útaf þungu og dýru ferli við að fá samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Stóru fyrirtækin hafa hins vegar bæði fjármagn og sérfræðinga til að standa í þessari glímu.

Ef Samkeppniseftirlitið þyrfti eingöngu að fylgjast með 20-50 fyrirtækjum í stað 6-800 fyrirtækja þá yrði öll framvinda léttari og hraðari,“ segir Hermann.