Útilokað að Svandís verði áfram matvælaráðherra eftir næstu mánaðarmót

Útilokað er að Svandís Svavarsdóttir verði áfram matvælaráðherra um næstu mánaðarmót, aðeins er spurning hvernig atburðarásin verður kringum brottför hennar úr ráðuneytinu. Þetta er mat Bergþórs Ólasonar, þingflokksformanns Miðflokksins, en en Miðflokkurinn hefur sem kunnugt er boðað að lögð verði vantrausttillaga á ráðherrann þegar þing kemur saman að loknu jólaleyfi.

Bergþór ræddi málin við Arnþrúði Karlsdóttur á Útvarpi Sögu í gær. Þar vakti hann meðal annars athygli á sterkri stöðu Svandísar innan raða Vinstri grænna, sem ylli forsætisráðherranum og flokksformanninum Katrínu Jakobsdóttur vandræðum. Svo virðist sem hún hafi ekki pólitískan styrk til að víkja Svandísi úr ríkisstjórn eða skáka henni til milli ráðuneyta.

Enn eru tvær vikur eða tæplega það, þar til þing kemur saman aftur og margt getur gerst á þeim tíma. Bergþór sagði spurninguna nú snúa að þremur mögulegum sviðsmyndum, sem allar endi samt með því að nýr matvælaráðherra verði kominn fyrir mánaðarmót: Í fyrsta lagi að VG átti sig á hinu óumflýjanlega og hniki Svandísi úr embætti matvælaráðherra yfir í annað ráðuneyti, í öðru lagi að Svandís falli sem ráðherra með því að vantrausttillagan verði samþykkt eða í þriðja lagi að ríkisstjórnin hreinlega springi.

Að sögn Bergþórs er líklegt að Svandís harðneiti að hafa stólaskipti við Guðmund Inga Guðbrandsson og láti einfaldlega stilla Sjálfstæðisflokknum upp í málinu og þar með stjórnarsamstarfinu. Ljóst sé af yfirlýsingum ýmissa sjálfstæðisþingmanna að ómögulegt sé fyrir þá að verja hana vantrausti og því sé nú allt kapp lagt á að finna málamiðlun sem allir geti sætt sig við. Hvort það takist, komi í ljós á næstu dögum og andrúmsloftið á stjórnarheimilinu sé eftir því.