Útlendingamálin eru og verða kosningamál

Brynjar Níelsson, lögmaður og fv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Umræðan um útlendingamál þessa dagana er fyndin en um leið átakanleg og vitlaus. Kemur ekki á óvart að Viðreisn vilji ekki gera þessi mál að kosningamáli heldur eigi þingið að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Þorsteinn Pálsson leggur til einhverja miðjulausn í málinu. Maður spyr sig hvar þetta ágæta fólk hafi verið undanfarin ár og misseri,“ segir Brynjar Níelsson, fv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Hann segir umræðuna skyndilega hafa breyst þegar formaður Samfylkingarinnar „raknaði loksins úr rotinu“ og viðurkenndi að ófremdarástand væri í hælisleitendamálum, eins og tveir síðustu dómsmálaráðherrar hafi þó bent stöðugt á.

„Það gerðist auðvitað ekki fyrr en hún áttaði sig á því hvernig vindar voru að blása og að þetta yrði kosningamál. Málflutningur Samfylkingarinnar og Viðreisnar var allt öðruvísi fyrir aðeins nokkrum mánuðum. Kannski er hægt að selja kjósendum að batnandi er hverjum manni best að lifa. En er þetta trúverðugt? Fortíðin hverfur ekkert og allt er til í hljóð og mynd.

Svo er ástæða til að benda þessum flokkum á að þeir hafi aldrei lagt neitt til á undanförnum árum til að laga ástandið og staðið á öskrinu gegn öllum tillögum um breytingar með tilheyrandi svívirðingum. Þá er ágætt að rifja það það upp með Viðreisnarfólki að gildandi útlendingalög var afrakstur þverpólitískrar samstöðu á þinginu. Það var miðjulausn að hætti Þorsteins Pálssonar og ávísun á vandamál til framtíðar. Þingið mun ekki komast að neinni vitrænni lausn frekar en fyrri daginn.“

Lokaorð Brynjars eru svo áhugafólki um stjórnmálaástandið eflaust forvitnileg þar eð hann talar hvort tveggja í nútíð og framtíð um mögulegar kosningar.

„Þetta er og verður kosningamál enda miklir þjóðhagslegir hagsmunir undir.“