Útsvarshækkun í Garðabæ er áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Sjálfstæðismaðurinn Almar Guðmundsson er bæjarstjóri í Garðabæ.

Óhætt er að segja að ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar um hækkun út­svars úr 13,92% í 14,48% vegna slæmrar rekstrarstöðu bæjarfélagsins sé áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Áratugum saman hefur flokkurinn státað sig af lægra útsvari í bláum sveitarfélögum á borð við Garðabæ og Seltjarnarnes og gagnrýnt aðra stjórnmálaflokka fyrir skattastefnu sína í meirihluta annarra bæjarfélaga.

En nú er komið í hlut bæjarstjórans Almars Guðmundssonar að hækka skatta á sitt fólk, þótt það muni ekki einu sinni duga til þess að komast yfir núllið, ef marka má áætlanir. Þær gera nú ráð fyrir ríflega áttatíu milljóna króna halla, enda þótt útsvarshækkun, að hægt verði á framkvæmdum bæjarins og aðhald í rekstri eigi að rétta reksturinn af um einn milljarð króna.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur státað sig af því í gegnum tíðina að geta náð árangri í rekstri án þess að íþyngja fólki með auknum sköttum. Það virðist liðin tíð. Á vettvangi ríkisstjórnar og sveitarfélaga hefur hann hins vegar sýnt alveg sömu skattafíkn og aðrir valdaflokkar. Nýr fjármálaráðherra og varaformaður flokksins, var þannig ekki lengi búin að vera í nýju embætti þegar nýr skattur vegna hamfaranna á Reykjanesi hafði litið dagsins ljós. Engum virðist hafa dottið í hug að forgangsraða verkefnum á nýjan leik í ljósi óvæntra náttúruhamfara og setja ýmis gæluverkefni á ís. Mikið vill alltaf meira.

Af hverju hefur Sjálfstæðisflokkurinn gefist upp á að sýna aðhald í rekstri, fara vel með opinbert fé og forgangsraða verkefnum? Af hverju hefur sú stefna orðið ofan á að bæta alltaf í hítina og senda skattgreiðendum reikninginn?

Er einhver undrandi á að fylgi flokksins fari niður á við, þegar forystumenn hans hafa gleymt því sem sjálfstæðisstefnan gengur út á?