Væntir þess að VG láti brátt af tvískinnungi sínum gagnvart NATO

„Það er fagnaðarefni að Svíar og Finnar tilheyri brátt Nató eins og aðrar Norðurlandaþjóðir. Vonandi verður það til þess að auka enn áhrif friðsamari þjóða innan þessa bandalags. Frá lokum seinni heimsstyrjaldar hafa lýðræðisþjóðir Evrópu búið við það að hafa sem nágranna í álfunni agressíft og heimsvaldasinnað alræðisríki undir stjórn harðsnúinnar klíku sem komið hefur á leppstjórnum í þeim löndum sem það hefur lagt undir sig. Nató er varnarbandalag út af þessu nábýli, enda vilja allar þjóðir sem sleppa undan járnhæl Rússa komast í Nató sem fyrst,“ skrifar Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, í tilefni af leiðtogafundi bandalagsins í Vilnius.

„Bandalagið hefur að sönnu gert margvísleg mistök, stundum verið of leiðitamt Bandaríkjamönnum í geópólitískum glæfraferðum en það breytir því ekki að í þessu bandalagi eigum við Íslendingar heima. Mér finnst það gott hjá Katrínu Jakobsdóttur að fylgja þeirri stefnu í raun og gott hjá henni að styðja með ráðum og dáð aðildarumsóknir Svía og Finna. Ég vænti þess að flokkur hennar muni láta af tvískinnungi í stefnu sinni og snúa af braut einangrunarhyggju í afstöðu til þessa samstarfs – og vonandi líka ESB, sem er hin hliðin á þessari samvinnu og jafn nauðsynleg,“ bætir hann við.