Vandi ríkisstjórnarinnar

Forsætisr´

Aldrei þessu vant var ekki blásið til upplýsingafundar almannavarna þennan fimmtudaginn, enda þótt smit séu yfir hundrað á degi hverjum og skólastarf að hefjast. Eins og Viljinn skýrði frá í gær, liggur ríkisstjórnin nú yfir minnisblaði sóttvarnalæknis um stöðu og horfur í faraldrinum, þar sem hann leggur til ýmsar íþyngjandi aðgerðir á landamærunum og hér innanlands jafnlengi og faraldurinn stendur.

Við þessar aðstæður er ríkisstjórninni mikill vandi á höndum rétt fyrir kosningar. Fari hún að tillögum sóttvarnalæknis er hætt við mikilli óánægju í samfélagi þar sem flestir eru bólusettir og alvarleg veikindi enn fátíð, sem betur fer. Atvinnulífið mun verða fyrir þungu höggi, skemmtana- og veitingageirinn sér fram á erfið misseri, jafnvel ár, og þúsundir landsmanna á þúsundir ofan munu lenda í sóttkví næstu vikur og mánuði.

Vandinn verður ekkert minni, ef ríkisstjórnin ákveður að nú sé komið gott og ekki sé ástæða til að taka undir varnaðarorð Þórólfs Guðnasonar. Þá verður það stóra málið rétt fyrir kosningar, að pólitíkin sé hætt að hlusta á sérfræðingana og flokkar á borð við Flokk fólksins og Sósíalistaflokkinn munu njóta góðs af því.

Við þessar aðstæður, þar sem beðið er eftir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar, er ekkert skrítið að þríeykið blási ekki til upplýsingafundar. Það liggur enda fyrir hverju þau mæla með. Boltinn er hjá ráðherrunum og þeir vita manna og kvenna best að kosningar nálgast óðfluga…