Vandræðaleg þögn Framsóknar og VG

Hin hefðbundna júlífréttagúrka kom aldrei þetta sumarið, jarðhræringar og eldgos á Reykjanesi og pólitískir landskjálftar hafa séð til þess. Uppnám og óhamingja er innan Sjálfstæðisflokksins og skyldi engan undra og þarf ekki mikinn stjórnmálafræðing til þess að skynja að skriða er farin af stað sem forysta flokksins mun eiga erfitt með að hægja á, hvað þá stöðva.

Vilhjálmur Árnason, ritari flokksins og þingmaður hefur sagt að stjórnarsamstarfið geti ekki haldið áfram nema gerðar verði breytingar. Flokksmenn líði ekki málamiðlanir mikið lengur.

Það var og. En hvað þýðir það? Sjálfstæðisflokkurinn er í þriggja flokka ríkisstjórnarsamstarfi þvert yfir hið pólitíska litróf sem einkennist af engu nema málamiðlunum. Baráttumál einstakra flokka eru kæfð og unnið með lægsta samnefnarann í besta falli. Stærstu sigrarnir felast í því að ögra samstarfsflokki og þæfa afgreiðslu mála; aðgerðaleysið er átakanlegt, ekki síst þegar ótalmörg aðkallandi vandamál blasa við hverjum sem opna vill augun.

Brynjar Níelsson, sem gerði allt vitlaust með pistli hér á Viljanum á dögunum, segir svipaða hluti í Moggaviðtali í dag. Hann kveðst finna mikla undiröldu og óttast klofning í flokknum og talið berst að mögulegum leiðtogaskiptum og hvort þau séu nauðsynleg: „Ég veit það ekki. Formaður­inn okk­ar hef­ur ótrú­lega marga góða kosti og er mjög öfl­ug­ur. Mér finnst hann al­gjör yf­ir­burðamaður sem er fljót­ur að setja sig inn í mál. Maður get­ur svo auðvitað spurt hvað sé eðli­legt að menn séu í for­ystu lengi fyr­ir flokk eins og Sjálf­stæðis­flokk­inn. Sál­fræðilega get­ur verið sterkt að skipta um for­ystu á ákveðnu tíma­bili. Þá þarf að finna ein­hvern mjög góðan.“

Það eru semsé óveðursský á hinum og stormur í aðsigi. Forysta Sjálfstæðisflokksins er að vakna upp við vondan draum. En þá vekur vandræðaleg þögn úr herbúðum Vinstri grænna og Framsóknar nokkra athygli. Er fólk þar á bæ bara hæstánægt með stöðu mála? Er óánægjan bundin við stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins? Hafa huggulegheitin í ráðherrastólunum og utanlandsferðunum blindað fólki sýn? Hvernig er ætlunin að bregðast við samtalinu sem framundan er við Valhöll? Að nóg sé komið af málamiðlunum og eitthvað verði að fara að gerast?

Það verður spennandi að sjá…