Nóg er að gera hjá kosningasmölunum Janusi Arn Guðmundssyni og Heimi Hannessyni þessa dagana, en þeir tóku virkan þátt í kosningabaráttu Guðrúnar Karls Helgudóttur sem nú er orðin biskup og eru jafnframt innsti koppur í búri kosningamaskínunnar sem kennd er við Guðlaug Þór Þórðarson og Grafarvog og mallar nú af kappi fyrir forsetaframbjóðandann Baldur Þórhallsson.
Athygli vakti í gær, að kosningasmalarnir tveir birtu mynd af sér með nýja biskupnum á samfélagsmiðlum, þar sem sigri var fagnað í biskupskosningunum.
Þeir sem þekkja til í flokkstarfi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, vita að þar hafa tvær fylkingar tekist á um langt skeið, gráar fyrir járnum. Önnur er kennd við Guðlaug Þór, hin við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Bæði eiga her stuðningsmanna sem takast á við ýmis mismerkileg tækifæri, jafnvel um kosningar í einstaka hverfafélögum, enda er alltaf undir vald til að velja fulltrúa á landsfundi. Slíkt getur verið afar mikilvægt þegar til forystukjörs kemur.
Þeir Janus og Heimir hafa beitt sér óspart í þeim hrókeríngum öllum, stundum af meira kappi en forsjá og virðist hefðbundin pólitík þá vera aukaatriði. Ljóst er að hart verður barist næstu vikur í kapphlaupinu um Bessastaði og er haft eftir þeim félögum, innan úr maskínu Baldurs og Felix, að kosningabaráttan eigi eftir að harðna á næstu dögum, svo um munar. Eitthvað hljóta þeir að hafa fyrir sér í því, sem fróðlegt verður að fylgjast með…