Vantraustið á Svandísi: Fundur Evrópuráðsins í Strassborg gæti ráðið úrslitum

Þegar allt lék í lyndi; Erna Bjarnadóttir varaþingmaður Miðflokksins og Birgir Þórarinsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kosinn fyrir hönd Miðflokks á þing.

Þeir eru rauðglóandi símar stjórnarþingmanna þessa dagana, meðan kortlagt er hvort ríkisstjórnarmeirihlutinn heldur gagnvart boðaðri vantrausttillögu Miðflokksins og fleiri á Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra, þegar þing kemur saman að loknu jólaleyfi eftir aðra helgi.

Athygli vekur, að þingfundur Evrópuráðsins, sem fer fram í Strassborg 22. – 26. janúar nk, gæti ráðið úrslitum í þessum efnum, þar sem gert er ráð fyrir að þrír aðalmenn í Íslandsdeild Evrópuráðsins sæki fundinn, auk sérfræðings í alþjóðamálum, og miðast ferðatilhögun Alþingis, samkvæmt upplýsingum sem Viljinn hefur aflað sér, við þátttöku Bjarna Jónssonar, formanns frá VG, Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, varaformanns frá Pírötum, og Birgis Þórarinssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Ekki síst er það möguleg þátttaka Birgis á fundinum í Strassborg sem vekur athygli, enda var hann kosinn fyrir Miðflokkinn á þing, en mundi svo allt í einu eftir því á kosninganótt að honum liði ekki vel þar og gekk til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Engu að síður er varaþingmaður hans Miðflokkskonan Erna Bjarnadóttir og hún kæmi inn í forföllum hans og þar með færi stjórnarmeirihlutinn á þingi niður um einn.

Auk þess er lítt falið leyndarmál á þingi, að varamaður Bjarna Jónssonar, þingmanns Vinsti grænna í Norðvesturkjördæmi, er Lilja Rafney Magnúsdóttir, reynd fyrrverandi þingkona flokksins, og einhver ákafasti gagnrýnandi Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra í flokknum og svarinn andstæðingur sjávarútvegsstefnu hennar. Myndi hún verja Svandísi vantrausti ef á reyndi?

Gera má því skóna, miðað við yfirlýsingar Pírata undanfarna daga, að bæði Þórhildur Sunna eða varamaður hennar, myndi greiða atkvæði með vantrausti á ráðherrann.

Svo er spurning með þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem harðast hafa farið í gagnrýni sinn á ráðherrann vegna stjórnsýslu hennar í hvalamálinu. Einna hörðust gagnrýni hefur komið frá þingflokksformanninum Hildi Sverrisdóttur, en nokkuð ljóst má telja að Jón Gunnarsson fv. ráðherra og Óli Björn Kárason fv. þingflokksformaður gætu hugsað sér að styðja vantraust. Á gráu svæði eru að líkindum Teitur Björn Einarsson, þingmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi sem gagnrýndi hvalveiðibannið ákaft frá fyrstu stundu, Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason í Suðurkjördæmi og ráðherrann Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sem ekki er þekkt fyrir að vera meðal helstu aðdáenda Svandísar, sbr. uppistandið fræga á sjávarútvegsdeginum í Hörpu sl. haust.

Þá eru eftir þingmenn Framsóknarflokksins sem margir virðast hafa týnt símunum sínum undanfarna daga og virðast utan þjónustusvæðis.

Spurning er hvort símafyrirtækin ná að kippa því í liðinn áður en þing kemur saman…