Var ekki planið að njóta góða veðursins?

Allt frá því Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, blés á gagnrýni stjórnarandstöðunnar fyrir nokkrum dögum og hafnaði hugmyndum um að þing yrði kallað saman, hefur varla verið þverfótað fyrir óánægðum sjálfstæðismönnum sem viðra óhamingju sína með flokkinn og stjórnarsamstarfið.

Arnar Þór Jónsson varaþingmaður hélt fund um fullveldismál í Valhöll, kallaði flokk sinn þar sósíaldemókratískan og hótaði því að stofna nýjan flokk. Ætlar hann nú í fundaferð um landið að ræða stjórnmálaviðhorfið og hvetur þar þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að mæta og „standa fyrir máli sínu“.

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, sagði í gær að flokkurinn sem hann hefði stutt „allt frá því [hann] komst til vits og ára“ hafi nú breyst í að verða stefnulítill flokkur sem takist aðallega á við flokka lýðskrums og vinstrimennsku um fáfengileg dægurmál í því skyni að ná af þeim atkvæðum.

Og í dag stingur Jón Kristinn Snæhólm, hinn helmingur Hrafnaþingsdúettsins margfræga og fyrrverandi aðstoðarmaður Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra, niður penna á fésbókinni og segir:

„Þegar menn hætta að hugsa út fyrir boxið og ana gagnrýnislaust eins og sauðir til að þóknast ríkjandi valdaelítu er í babba komið. Er Sjálfstæðisflokkurinn kominn þangað að grasrótin gangi hugsunarlaust á eftir forystu sem skilur ekki grunnstef flokksins, sögu hans og forsendu stærðar meðal þjóðarinnar.

Getur verið að Marxisminn geti náð að vekja okkur sjálfstæðismenn af værum blundi?

Hver skrifaði um hvernig rikjandi valdastéttir móta hugsunarhátt almennings og menningu til að halda auði og völdum?“

Það var og. Hvað er eiginlega að gerast í Sjálfstæðisflokknum? Áttu menn ekki að njóta góða veðursins?