Sighvatur Björgvinsson, fv. formaður Alþýðuflokksins, ráðherra, ritstjóri og sendiherra, furðar sig í aðsendri grein í Morgunblaðinu um liðna helgi, á þeirri illmælgi sem viðhöfð hafi verið um annað fólk í nýafstöðnum forsetakosningum.
Krataforinginn gamli er kominn á níræðisaldur, en minnist þess þó ekki að jafn harkalega hafi verið skipst á orðum í þjóðmálaumræðunni — hvorki meira né minna — og er því ástæða til að staldra við varnaðarorð hans:
„Það merkilega er að þar er síður en svo um að ræða gífuryrði, skammir og níð um sjálfa frambjóðendurna – þó slíkt hafi óneitanlega borið við. Heldur er hvarvetna um að ræða lágkúrulegar árásir og hreint níð um fólk sem hefur leyft sér að hafa skoðanir á frambjóðendum og látið í ljós stuðning við einhvern þeirra,“ segir hann.
Með tilkomu samfélagsmiðla segir Sighvatur að fólk virðist fá af sér að sýna „meðvitaða ofsóknarkennd og persónulega árásarhneigð“ án nokkurs minnsta hiks né efa.
Niðursstaða hans er sú að hatursorðræða einkenni núorðið íslenska þjóðmálaumræðu.
„Fólk má þar níða aðra eins og hverjum og einum níðhögg þóknast. Enginn ábyrgur, síst af öllu höfundurinn sjálfur sem miklu fremur miklast af eigin verkum. Hatursumræða er vinsælasta umræðuefni á Íslandi í dag. Það er ekki lengur umræðuvert. Það umræðuverða er að enginn finnur þar til neinnar ábyrgðar – og engum er lengur meinað að tjá sig um annað fólk með slíkum hætti eins og við gömlu ritstjórarnir þurftum að gera til þess að axla ekki ábyrgðina sjálfir. Ísland er í þjóðmálaumræðunni orðið vígvöllur þar sem níðhöggar keppa hver við annan um illmælgi og svívirðingar um annað fólk.“