Vaxandi líkur á að Bjarni Benediktsson verði aftur forsætisráðherra

Samtöl og þreifingar hafa staðið yfir milli flokkanna þriggja sem mynda fráfarandi ríkisstjórn alla helgina um framhald mála. Samkvæmt heimildum Vijans eru vaxandi líkur á að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins verði að nýju forsætisráðherra, annað hvort í áframhaldandi samstarfi Sjálfstæðisflokks með Framsókn og VG eða að Viðreisn taki sæti Vinstri grænna við ríkisstjórnarborðið.

Bjarni Benediktsson er ekki alveg ókunnugur forsætisráðuneytinu; hann var forsætisráðherra um skamma hríð í samstarfi við Viðreisn og Bjarta framtíð.

Fari svo að þetta verði niðurstaðan, er talið líklegast að Svandís Svavarsdóttir verði utanríkisráðherra svo unnt verði að forðast vantrausttillaga um störf hennar í hvalamálinu. Þeirri hugmynd hefur einnig verið fleytt að Svandís komi inn í innviðaráðuneytið, Sigurður Ingi færi sig yfir í fjármálaráðuneytið og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verði utanríkisráðherra að nýju.

Eins og Viljinn greindi frá í gær, er mikil andstaða við áframhaldandi samstarf við VG innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Þar á bæ vilja margir skoða til þaula möguleikann á að kalla Viðreisn til leiks í samstarf, þar sem slíkt gæti boðið upp á mun borgaralegri áherslur og verkefni sem eru frekar í ætt við það sem Sjálfstæðisflokkurinn telur brýnast að ná fram um þessar mundir í stjórnmálunum. Nægir þar að nefna breytingar í útlendingamálum, orkumál og aðgerðir til hagræðingar í ríkisfjármálunum.