Vel lesinn framkvæmdastjóri

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Hvorki gengur né rekur í viðræðum deiluaðila á vinnumarkaði og útlit fyrir harðvítug átök á næstu vikum og mánuðum. Sólarhringsverkfall Eflingar og VR verður næstkomandi föstudag og svo taka við frekari verkfallsaðgerðir, auk þess sem iðnaðarmenn og félagsmenn í Starfsgreinasambandinu hafa jafnframt slitið viðræðum og undirbúa verkföll.

Spjótin beinast mjög að samningsaðilum, sem vonlegt er, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, er daglegur gestur í viðtölum þar sem hann rýnir stöðuna og hvetur verkalýðsforystuna til að stíga varlega til jarðar, þar sem staðan í efnahagslífinu sé tvísýn.

Myrkrið er dimmast skömmu fyrir dagrenningu 

Í tveimur viðtölum í gær og dag hefur komið í ljós, að framkvæmdastjórinn virðist vel lesinn og prýðilega máli farinn. Hann hefur enda sjálfur lýst því að það sé sín gæfa að vera ekki á samfélagsmiðlum og má því ef til vill álykta sem svo, að hann taki sér fremur góða bók í hönd þegar slökun gefst, fremur en hanga á fésbókinni yfir misgáfulegum umræðum.

Stöðug, yfirvofandi hætta

Halldór Benjamín kom í viðtal við Ríkissjónvarpið í gær, eftir að Starfsgreinasambandið sleit viðræðum og var ábúðarmikill er hann rýndi í stöðuna framundan:

Staðan er tvísýn. Myrkrið er dimmast skömmu fyrir dagrenningu og nú er mikilvægt að nýta vel næstu daga til að forða því að hér verði mikið efnahagslegt tjón í gegnum þær verkfallsaðgerðir sem búið er að boða,“ sagði hann.

Í samtali við Stöð 2 og Bylgjuna í dag eftir að iðnaðarmenn höfðu ákveðið að fara sömu leið, sagði hann mikið hættuspil að fara með kjaradeilur í átakafarveg í kólnandi hagkerfi.

Það er landsmönnum öllum í hag að þeirri óvissu létti sem fyrst og að þessar vinnudeilur hangi ekki eins og sverð Damóklesar yfir hagkerfinu í heild sinni.“

Til að spara lesendum sporin (eða gúgglið) er líklega rétt að geta þess, sem Vísindavefurinn fræðir okkur um, að Damókles var hirðmaður Díonýsíosar týranna (405-367 f. Kr.) í Sýrakúsu á Sikiley. Samkvæmt ýmsum frásögnum á Damókles að hafa talað fjálglega um hamingju Díonýsíosar sem væri tilkomin vegna auðs og valda.

Díonýsíos ákvað því að sýna hirðmanni sínum hvernig hamingju hans væri raunverulega háttað. Hann bauð Damóklesi til glæsilegrar og íburðarmikillar veislu en skipaði honum til sætis undir miklu sverði sem hékk aðeins í einu hrosshári.

Með þessu vildi Díonýsíos sýna að hvað sem auði og völdum liði héngi líf valdsmanna og hamingja í raun í einu hrosshári: Gæfan er fallvölt.

Þegar menn tala um Damóklesarsverð er þess vegna átt við stöðuga yfirvofandi hættu.