Verkalýðshreyfing logar í innbyrðis deilum

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar./ Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Það er furðuleg staða komin upp á vinnumarkaði í aðdraganda kjarasamninga og á mjög viðkvæmum tímum farsóttar, orkukreppu og stríðsátaka að verkalýðshreyfingin logi að innan í deilum og átökum þar sem stóru orðin eru síst spöruð.

Allir þekkja þau átök sem hafa átt sér stað innan Eflingar, en ekki tekur betra við þegar kemur að ASÍ. Þar reynir forsetinn Drífa Snædal að stíga varlega til jarðar og gæta sjónarmiða verkalýðsfélaga um land allt, en hefur á móti sér þríeyki Sólveigar Önnu í Eflingu, Vilhjálms Birgissonar á Akranesi og Ragnars Ingólfssonar í VR sem lýsa eiginlega vantrausti á hana og Alþýðusambandið í heild sinni við hvert tækifæri.

Við þessar aðstæður er auðvitað eðlilegt að samtök vinnuveitenda haldi að sér höndum, enda viðsemjandinn upptekinn í átökum á heimavígstöðvum, en til lengdar litið getur þetta ástand ekki gengið. Ísland þarf á öllu öðru að halda nú en skærum á vinnumarkaði, verkföllum eða óraunhæfum kröfum sem kynda enn frekar undir verðbólgubálið. Það þarf skynsemi, vel útfærðar lausnir og leiðir sem tryggja að kaupmátturinn sé varinn og stöðugleikinn líka, án þess að allt fari í kalda kol. Og fyrst og fremst þarf að huga að húsnæðismarkaðnum sem er í algjöru rugli hér á landi, svo vægt sé til orða tekið.

Og auðvitað þurfa forsvarsmenn fyrirtækja líka að sýna skynsemi við þessar aðstæður, en taka ekki ákvarðanir sem reita launafólk til reiði. Það segir sig sjálft.