Verkstol ríkisstjórnar og stjórnarliðar sem geta ekki lengur verið nálægt hver öðrum

Hanna Katrín Friðriksson.

Eitt versta leyndarmál íslenskra stjórnmála er að ríkisstjórnin logar innbyrðis, alveg sama hversu oft forystumenn hennar koma fram opinberlega og halda öðru fram. Á Alþingi henda þingmenn stjórnarandstöðunnar gaman að því að aldrei fyrr hafi frumvörp og tillögur almennra þingmanna hlotið jafn mikinn framgang í þingstörfunum af þeirri einföldu ástæðu að frá ríkisstjórninni kemur fátt. Átökin eru öll að tjaldabaki og fyrir vikið er þingið hálf lamað og dagskrá þess oft úr öllum tengslum við brýnustu mál samtímans.

Tvær þingkonur Viðreisnar gerðu þessa furðulegu stöðu að umtalsefni á þingi í dag. Fyrst sagði Hanna Katrín Friðriksson að ríkisstjórnin væri haldin „verkstoli“ og það hefði mikil áhrif á þingstörfin.

„Við munum öll hvernig vorið fór þar sem þingi var slitið óvænt með fjölda mála ókláruð og það sem meira er, sum mál voru tilbúin af hálfu nefnda en fóru ekki til afgreiðslu inn í þingsal. Stjórnarliðar gátu bara ekki lengur verið nálægt hver öðrum. Svo kom sumarið og nú líður að jólum. Það eru þungar aðstæður í samfélaginu en samþykkt stjórnarmál eru orðin þrjú núna í lok nóvember. Það er varnargarðurinn, það eru átök fyrir botni Miðjarðarhafs, hvort tveggja óvænt mál sem ekki voru á þingmálaskrá, og síðan vaktstöð siglinga. Fjöldi mála sem áttu að koma inn á þing núna í haust er 109. Það eru 39 mál komin og eru þar með 38 í nefndum. Ég velti því fyrir mér hvort það hafi verið niðurstaða samningaviðræðna stjórnarliða í sumar að stjórnarsamstarfið myndi halda ef ríkisstjórnin passaði sig á því að gera ekki neitt. Og spurningin er: Er það þetta sem ríkisstjórnin vill bjóða heimilum landsins upp á núna, með verðbólguna enn á fullu skriði, vexti himinháa og fleiri risastór verkefni fram undan? Er þetta erindið?“

Deyja málin öll á ríkisstjórnarfundum?

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir tók í sama streng: „Við verðum að ræða fílinn í herberginu, Alþingi er lamað. Verðbólga gengur ekkert niður, vextir haldast ógnarháir, flóknir kjarasamningar eru fram undan en það er lítið, nánast ekkert í dagskrá þingsins sem speglar stöðuna.

Hvers vegna er ég að nefna þetta? Ríkisstjórnin er svo sundruð í dag að hingað berast einfaldlega engin frumvörp frá ráðherrum. Deyja málin öll á ríkisstjórnarfundum? Alþingi hefur afgreitt tvö stjórnarfrumvörp í allt haust, annað þeirra varðaði varnargarð og skatta á almenning vegna ástandsins í Grindavík og kom óvænt hér á dagskrá, hitt málið varðaði breytingar á lögum um vaktstöð siglinga.

Ágætismál alveg hreint, en var vaktstöð siglinga erindið sem stjórnin var að leita að í haust? Fjöldi frumvarpa frá ríkisstjórninni sem var boðaður fyrir haustið var 109 en í lok nóvember eru 39 frumvörp komin til þingsins. Ríkisstjórnin er orðin óstarfhæf vegna sundrungar. Alþingi er sem lamað fyrir vikið og þetta þarf að segja upphátt.“

Það er gott hjá þessum þingmönnum Viðreisnar, að segja upphátt það sem blasir við.