VG varði ráðherrana Sigríði og Jón vantrausti, en gerði kröfu að tjaldabaki um að bæði vikju

Loft er lævi blandið í íslenskum stjórnmálum og hart tekist á bak við tjöldin um stöðu matvælaráðherrans Svandísar Svavarsdóttur. Krafa er uppi frá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki að Vinstri græn geri þær breytingar sem þarf á ráðherraliði sínu áður en þing kemur saman að loknu jólaleyfi, svo ekki þurfi að koma til þess að greidd verði atkvæði um boðaða vantrausttillögu Miðflokksins gegn ráðherranum.

Athygli vekur að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í viðtölum eftir ríkisstjórnarfund í gær ekki tímabært að tjá sig um boðaða vantrauststillögu, en minnti á að Vinstri Grænir hafi varið ráðherra Sjálfstæðisflokksins vantrausti þegar á það reyndi.

„Það væri nú ekki fyrsta vantrauststillagan sem ráðherra í minni ríkisstjórn fengi á sig, þær hafa verið að minnsta kosti tvær. Þeir ráðherrar hafa nú staðist þær. Við þurfum bara að sjá hvernig mál þróast þegar þing kemur saman,“ sagði Katrín í viðtali við Fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar í gær.

Forsætisráðherra var greinilega með þessari yfirlýsingu að minna þingmenn Sjálfstæðisflokksins á ábyrgð sína, en hversu réttmæt er þessi fullyrðing í reynd? Viljinn hefur öruggar heimildir fyrir því að bæði Sigríður Á. Andersen og Jón Gunnarsson hafi sem dómsmálaráðherrar verið varðir vantrausti, gegn eindreginni kröfu Vinstri grænna um að bæði vikju úr ráðherrastóli, að öðrum kosti væri útséð um ríkisstjórnarsamstarfið.

Um þetta segir Jón Gunnarsson á fésbókinni í dag:

„Vissulega vörðu þingmenn VG mig vantrausti á sínum tíma. Ég fékk skýr skilaboð frá þeim, með þjósti, um að það hefði alls ekki þótt sjálfsagt í þeirra röðum. Þetta mál snérist um það hvort ég hefði brotið þingskaparlög varðandi upplýsingar til þingsins vegna veitingu ríkisborgararéttar á vettvangi þess. Lagastofnun Háskóla Íslands komst síðar að þeirri niðurstöðu að ég hefði EKKI brotið lög í málsmeðferð ráðuneytisins.“

Við færslu Jóns ritar Kristinn Karl Brynjarsson, formaður verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins, svofellda athugasemd: „Vg eiga bara akkúrat ekkert inni hjá Sjálfstæðisflokknum. Vantrauststillagan á þig Jón var tilhæfulaus með öllu. Í máli Siggu Andersen var henni og Sjálfstæðisflokknum stillt upp við vegg og henni gefnir þeir afarkostir að fara eða sprengja stjórnina.“