„Viðreisn fær nóg samt: auðlindagjöld og ESB“

Það sleikja margir sín sár eftir kosningarnar, eins og gengur. Samfylkingin, sem var mynduð til að verða breiðfylking íslenskra jafnaðarmanna, er vart svipur hjá sjón og 9,9% fylgi er óravegu frá þeim árangri sem að var stefnt. Minnast menn þess þá að Össur Skarphéðinsson var settur af sem formaður þegar flokkurinn hafði náð vel yfir 30% fylgi og hann sjálfur fyrsti þingmaður annars Reykjavíkurkjördæmanna. Það þótti ekki nógu gott, sem verður að teljast alveg stórmerkilegt í sögulegu ljósi.

Eflaust veldur margt þessari gjörbreyttu stöðu flokks sem eitt sinn ætlaði að vera annar tveggja turna í íslenskum stjórnmálum. En margir jafnaðarmenn velta fyrir sér hvers vegna svonefnd harðlínuöfl hafi tekið flokkinn yfir og ekið honum einhvern veginn beina leið út í skurð.

Er þá vísað til þess að þessi armur Samfylkingarinnar hafi ekki linnt látum fyrr en Árni Páll Árnason var hrakinn úr stóli formanns, meðal annars fyrir þær sakir að hafa ekki náð að keyra áfram samþykkt nýju stjórnarskrárinnar. Allir sem eitthvað vita um íslensk stjórnmál eru meðvitaðir um að á bak við slíkar ásakanir er enginn sannleikur. Það var enginn meirihluti á þingi fyrir því að keyra breytingar á stjórnarskránni í gegn, enda þótt Jóhanna Sigurðardóttir þáverandi forsætisráðherra sækti það fast. Þetta átti að vera hennar lokasigur á löngum stjórnmálaferli. Þungavigtarfólk í Vinstri grænum og Samfylkingunni hafði engan áhuga á því. Stjórnarandstaðan lagðist þversum gegn því. Þáverandi forseti lýðveldisins varaði eindregið við því í einkasamtölum. Við þær aðstæður hentaði ýmsum vel að kenna Árna Páli um allt saman, enda þótt hann hefði ekki gert annað en horfast í augu við stöðuna eins og hún var og reyna að gera það besta úr henni.

Það er líklega kaldhæðni örlaganna, að í dag hafi verið ákveðið að þessi sami Árni Páll taki sæti í stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá og með næstu áramótum. Það er mikil vegtylla í alþjóðlegu samstarfi og kannski vert að gefa því gaum, að í þrennum kosningum frá því Árni Páll hætti sem formaður Samfylkingarinnar hefur Samfylkingin ekki fengið meira í kosningum en náðist undir hans forystu árið 2013. Var þó flokkurinn þó í sárum eftir óvinsælt ríkisstjórnarsamstarf og þjóðaratkvæðagreiðslur og dóm EFTA-dómstólsins um Icesave. Mestu flugi, eða 22% fylgi, náði flokkurinn í skoðanakönnunum undir stjórn Árna Páls síðla árs 2014, en það þótti heldur ekki nóg, frekar en hjá Össuri forðum og því linnti hinn róttæki armur flokksins ekki látum fyrr en hann var einnig horfinn á braut. Við tók Oddný Harðardóttir sem formaður og í kjölfarið beið Samfylkingin algjört afhroð í kosningum, eða 5,7% árið 2016.

Innan Samfylkingarinnar virðist hafa átt sér stað stórkostlegt ofmat á styrk flokksins fyrir kosningarnar nú. Þess meira áfall hljóta úrslitin að vera. Ekki aðeins var vinsælum framkvæmdastjóra bolað burt og ýmsum þingmönnum sömuleiðis í fyrravetur, heldur var keyrt áfram enn meira til vinstri, t.d. með kröfum um nýju stjórnarskrána í samkeppni við Pírata.

Til marks um þetta stórkostlega ofmat, eru þessi ummæli Kjartans Valgarðssonar, formanns framkvæmdastjórnar flokksins, á innri vef Samfylkingarinnar í liðinni viku, aðeins örfáum dögum fyrir kosningar. Hér er hann augsýnilega kominn á fleygiferð í stjórnarmyndun með Viðreisn; leggst gegn áformum um frekari einkarekstur í heilbrigðiskerfinu og hyggst ýta þeim út af borðinu á „fyrsta fundi um myndun ríkisstjórnar,“ eins og hann orðar það sjálfur. Viðreisn fái „nóg samt“. til dæmis auðlindagjöld og aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Fróðlegt er að skoða þessi ummæli í ljósi þess að flokkurinn, þar sem Kjartan er formaður framkvæmdastjórnar, fékk aðeins 9,9% í kosningunum. Viðreisn, sem hann ætlaði að semja við um aðild að Evrópusambandinu og auðlindagjöld, fékk svo 8,3%.

Sú spurning vaknar auðvitað, með hverjum öðrum var ætlunin að keyra áfram mál sem augljóst er að þjóðin er á móti? Átti aftur að fá Vinstri græn í þann leiðangur að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Eða Framsóknarflokkinn? Ekki kemur Sjálfstæðisflokkurinn til álita, þar sem Logi Einarsson hafði marglýst því yfir að samstarf við hann kæmi ekki til greina. Og ekki Miðflokkinn heldur. Þá eru eftir Píratar, Flokkur fólksins og Sósíalistar. Átti að semja við þessa flokka um umsóknarbréf til Brussel?

Það er kannski ekki skrítið, eftir á að hyggja, að þjóðin hafi valið að veita ríkisstjórnarflokkunum þremur áframhaldandi umboð til þess að stýra landinu…