Viðreisn hafi færst of mikið til vinstri, erfiðara með að greina sig frá Samfylkingunni

Athyglisvert var að lesa viðtal ViðskiptaMoggans í gær við Þorstein Víglundsson, fyrrverandi ráðherra og þingmann Viðreisnar, þar sem hann sagði sinn gamla flokk hafa færst of mikið til vinstri og eigi orðið erfiðara með að greina sig frá Samfylkingunni.

Þetta sjáist bæði í meirihlutasamstarfinu í Reykjavík en sé „líka vandamál í landsmálunum“.

Þorsteinn var framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins áður en hann fór út í stjórnmál, en hætti svo óvænt fyrir þremur árum og tók við forstjórastólnum hjá Eign­ar­halds­fé­laginu Horn­steini ehf, sem á og rekur þrjú félög, BM Vallá, Björgun og Sementsverksmiðjuna. Áður hafði hann einmitt starfað með föður sínum hjá BM Vallá, sjálfum Víglundi heitnum Þorsteinssyni.