Viljinn spáir í spilin: Sjö mögulegir frambjóðendur til forseta Íslands

Nú þegar Guðni Th. Jóhannesson hefur öllum að óvörum tilkynnt að hann ætli ekki að sækjast eftir endurkjöri og sitja þriðja kjörtímabilið sem forseti Íslands, fer samkvæmisleikurinn í gang um þá sem kunna að gefa kost á sér í embættið.

Viljinn tók saman lista yfir mögulega frambjóðendur, en enginn hefur enn látið formlega í ljós að hann gefi kost á sér.

Mögulegir frambjóðendur (ekki í sérstakri röð):

Magnús Geir Þórðarson, Þjóðleikhússtjóri og fv. útvarpsstjóri og leikhússtjóri í Borgarleikhúsinu. Vitað er að hann hefur áður verið orðaður við embættið og að hann sé ekki afhuga framboði.

Halla Tómasdóttir frumkvöðull og stofnandi Auðar Capital sem síðar gekk inn í Kviku. Bauð sig fram til forseta fyrir átta árum og náði þá eftirtektarverðum árangri.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Hefði getað farið í framboð fyrir átta árum og líklega unnið með yfirburðum. Staðan er gjörbreytt nú, forsætisráðherrann orðinn umdeildari og óvinsælli í ríkisstjórn sem talin er lifandi dauð. En Katrín er frambærilegur stjórnmálamaður sem nýtur virðingar þvert á flokka og þarna gæti verið komin kjörin útleið úr stjórnmálunum.

Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins og tónlistarmaður í Stuðmönnum. Með fjölþætta reynslu að baki, gríðarlegt tengslanet og pólitískan metnað.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og alþingismaður. Fyrrverandi ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Keppniskona sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Prestdóttirin sem varð framkvæmdastjóri stórs fyrirtækis fyrir þrítugt, hefur svo eflst í hverri raun og náð með lagni að skapa nýjan tón í samskiptum við verkalýðshreyfinguna og mótað sameiginlegan grundvöll að nýrri þjóðarsátt.

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík. Maður ársins í huga margra landsmanna fyrir einstakt jafnaðargeð í erfiðum aðstæðum og fágaða framkomu.

Meðal annarra nafna, sem nefnd hafa verið sem mögulegir frambjóðendur, eru Gísli Marteinn Baldursson sjónvarpsmaður og fv. borgarfulltrúi, Dagur B. Eggertsson fráfarandi borgarstjóri í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fv. utanríkisráðherra, borgarstjóri og formaður Samfylkingarinnar og Sigmundur Ernir Rúnarsson fjölmiðlamaður og fv. þingmaður.