Vill Miðflokkurinn báknið burt eða auka skrifræðið?

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og félaga fer með himinskautum í skoðanakönnunum og er orðinn næst stærsti stjórnmálaflokkur landsins, ef marka má nýjustu mælingu MMR fyrir október.

Svo virðist sem margt borgaralega þenkjandi fólk sé orðið landlaust í pólitíkinni og gamlir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins af íhaldskantinum telji Miðflokkinn áhugaverðan valkost, ekki síst eftir því sem sókn forystu Sjálfstæðisflokksins eftir því að elta Viðreisn í pólitískum rétttrúnaði vindur fram.

Áherslur Miðflokksins á komandi þingvetri vöktu athygli, ekki síst áherslan á að stöðva hina gífurlegu útþenslu ríkisbúskaparins hér á landi. Báknið burt er gamalt slagorð ungra sjálfstæðismanna, en það felast mikil sóknarfæri fyrir Sigmund Davíð og liðsmenn hans að endurvekja það nú og tala fyrir einfaldara Íslandi, minna skrifræði og meiri áherslu á einkaframtakið og drifkraft þess.

Sigmundur Davíð gerði hins vegar vel í því að bjóða flokksbróður sínum, Þorsteini Sæmundssyni, í kaffi einn daginn og fara yfir þessi áherslumál hans með honum, því Þorsteinn virðist alveg hafa misst af þeim tölvupóstum Miðflokksins og fundum þar sem útþensla báknsins hefur komið til umræðu.

Þorsteinn kemur nefnilega varla fram opinberlega án þess að tala fyrir auknu skatteftirliti, meira skrifræði eða gamaldags ríkisrekstrarpælingum á borð við nýja Áburðarverksmiðju á vegum ríkisins.

Í Silfrinu í gær gagnrýndi þingmaðurinn þannig deilihagkerfi nútímans sérstaklega og sagði:

„Ég er gamall innheimtumaður ríkissjóðs og mér finnst deilihagkerfi í grundvallaratriðum fínt nafn yfir skattsvik.“

Ef Miðflokkurinn meinar eitthvað með slagorðum á borð við báknið burt, þurfa talsmenn hans að tala í samræmi við það.

Gamlir innheimtumenn ríkisins vilja aldrei leggja af tekjustofna hins opinbera, en finna sífellt upp nýjar leiðir til að skattleggja borgaranna og gera þeim lífið leitt á einn eða annan hátt.

Það er gamaldags vinstrimennska, á ekkert skilt við borgaralega hugsun og er í engu líkleg til að laða varanlega að fylgi frá hægri vængnum til Miðflokksins.

Þorsteinn er baráttumaður mikill og gustar oft af honum í opinberri umræðu. Hann mætti gjarnan uppfæra hjá sér hið hugmyndafræðilega harða drif og tileinka sér stefnuskrá flokksins sem hann tilheyrir.