Vill taka upp stefnu gamla Alþýðubandalagsins og íhuga úrsögn úr NATO

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vill hverfa frá stefnu flokks síns í utanríkismálum og taka upp stefnu gamla Alþýðubandalagsins — eins af fyrirrennurum Samfylkingarinnar.

Hann segir í færslu á fésbókinni:

„Ef ég væri Bandaríkjamaður þá væri það mér ráðgáta hvers vegna hagmunir mínir og míns samfélags væru svo rammbundnir hagsmunum Sádi-Araba, og hvers vegna ég ætti yfirhöfuð að hafa skoðun á ágreiningi súnníta og síta, sem snýst í grunninn um það hvort ráðgjafi Múhameðs eða tengdasonur (en ekki dóttir) hafi átt að taka við af honum sem leiðtogi múslima á 7. öld.

Ég myndi ekki skilja hvað ég ætti sökótt við Írani eða hvers vegna ég ætti að hafa áhyggjur af valdabrölti þeirra í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég myndi hins vegar þrýsta á orkuskipti til að þessir olíusalar allir hafi minni áhrif á gang heimsmála og líka til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Það eru hvergi hagsmunir almennings að kaupa olíu; það eru hagsmunir mannkyns að hætta að vinna og brenna olíu … En ég er sem sagt ekki Bandaríkjamaður.“

Og hann bætir við:

„Hins vegar fæ ég að súpa seiðið af uppátækjum Bandaríkjaforseta – og núverandi ríkisstjórn okkar Íslendinga hefur verið að treysta böndin við þetta herveldi, jafnvel búa í haginn fyrir endurkomu ameríska hersins. Það finnst mér hættuspil; við eigum að fjarlægja okkur bandarískum hagsmunum eins og við mögulega getum, jafnvel að íhuga úrsögn úr Nató meðan Bandaríkjamenn eru þar svo fyrirferðarmiklir.“