Vinstri græn tala tungum tveim um alþjóðamál

Forsætisráðherra með framkvæmdastjóra NATO.

Vandræðagangur ríkisstjórnarflokkanna þriggja við að halda áfram hálflömuðu stjórnarsamstarfi er löngu orðið lýðum ljós. En þegar vá stendur fyrir dyrum í heiminum og hætta á að stríðsátök breytist út með ófyrirsjáanlegum afleiðingum er mikilvægt að ríkisstjórnin tali einni röddu á alþjóðavettvangi.

Þetta virðist vefjast ansi mikið fyrir Vinstri grænum og er það ekki í fyrsta sinn þegar alþjóðapólitík er annars vegar. Flokkurinn hefur ekki haft hugrekki til að fara að dæmi systurhreyfinga sinna á Norðurlöndum og endurskoða afstöðuna til NATO og því er það enn talið áherslumál í stefnuskrá flokksins að ganga úr bandalaginu þótt formaðurinn hafi sótt alla NATO-fundi samviskusamlega undanfarin sex ár og talað sérstaklega fyrir því að bæta Svíþjóð og Finnlandi í hópinn.

Og í hinni hörmulegu atburðarás fyrir botni Miðjarðarhafs vísaði forsætisráðherra í yfirlýsingu utanríkisráðherra þar sem hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael var fordæmd, en skipti svo um hatt og varð formaður VG og sendi ályktun út í nafni stjórnar VG, þar sem fordæmdar voru árásir og morð á almennum borgurum skilyrðislaust, hvar sem er í heiminum.

„Ein af grunnstoðum VG er alþjóðleg friðarhyggja. Ekkert er jafn skaðlegt fyrir umhverfið, velferð fólks og stöðu og réttindi kvenna og barna og hernaður. Ísland var fyrsta vestræna ríkið til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu árið 2011, en hernám Ísraels á landi Palestínu hefur staðið yfir áratugum saman. Íslensk stjórnvöld eiga að tala skýrt fyrir því að alþjóðalögum sé beitt til að vernda íbúa Palestínu og fordæma framgöngu Ísraelshers – eins og hryðjuverk Hamas fyrir nokkrum dögum,“ sagði þar.

Og nú nokkrum dögum síðar, þegar utanríkisráðherra skýrir hjásetu Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, kemur þingflokkur Vinstri grænna með ályktun um að Ísland hefði átt að greiða atkvæði með tillögu um tafarlaust vopnahlé á Gaza.

Ályktun sem í reynd gagnrýnir framgöngu utanríkisráðherrans í ríkisstjórn sem leidd er af VG.

„Þingflokkur Vinstri grænna telur að Ísland hefði átt að greiða atkvæði með tillögunni þótt breytingartillaga Kanada hafi ekki náð fram að ganga, en fastanefnd Íslands sat hjá. Telur þingflokkurinn að rétt hefði verið að styðja tillöguna sjálfa vegna umfangs mannúðarkrísunnar á Gaza. Þingflokkurinn tekur undir efni tillögunnar sem er í samræmi við málflutning íslenskra stjórnvalda.

Þingflokkur Vinstri grænna fordæmir árásir og morð á almennum borgurum skilyrðislaust, hvar sem er í heiminum. Hernaður veldur gríðarlegu tjóni á velferð fólks, stöðu og réttindum kvenna og barna, sem og umhverfinu. Rétt eins og allsherjarþingið samþykkti krefst þingflokkur VG þess að farið sé skilyrðislaust eftir alþjóðlegum mannréttindalögum, að almennum borgurum sem haldið er í gíslingu verði skilyrðislaust sleppt og leið lífsnauðsynja verði greidd inn á Gaza tafarlaust. Fyrir því eiga íslensk stjórnvöld áfram að tala.“

Svo mörg voru þau orð.

Tvöfeldni Vinstri grænna er orðið stórt pólitískt vandamál. Formaður og varaformaður flokksins taka þátt í aðgerðum ríkisstjórnar, en fara svo á fundi stjórnar eða þingflokks og senda frá sér ályktanir um eitthvað allt annað. Er það aðeins til heimabrúks, eða fylgir utanríkistefnu VG ekkert innihald?

Sagt er að maður eigi fyrst og fremst að fylgjast með því sem fólk gerir, en ekki hvað það segir. En þetta er jú einu sinni ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, eða var það ekki?