Vinstri menn raðast í störf hjá verkalýðsfélögum

Greinilegt er að stjórnmálamenn af vinstri vængnum eru eftirsóttur starfskraftur þegar kemur að stjórnun verkalýðsfélaganna hér á landi.

Viljinn skýrði í morgun frá ráðningu Magnúsar Más Guðmundssonar, varaborgarfulltrúa Samfylkingarinnar, í starf framkvæmdastjóra Bandalags starfsmanna ríkis og bæja (BSRB).

Stutt er síðan tilkynnt var að Flosi Eiríksson, fv. bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi, hefði verið ráðinn framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.

Hann tók við því starfi af Drífu Snædal sem er orðinn formaður ASÍ, en hún var áður framkvæmdastjóri Vinstri grænna.

Þá er ótalinn Viðar Þorsteinsson, nýr framkvæmdastjóri Eflingar, en hann situr í framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins. Flokkssystir hans þar er Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður félagsins.

Einnig má nefna Þórunni Sveinbjarnardóttur, fv. þingkonu Samfylkingarinnar, sem er formaður BHM.

Þetta er ekki tæmandi upptalning, en í lokin má einnig rifja upp að ríkissáttasemjarinn sjálfur, Bryndís Hlöðversdóttir, er fv. þingmaður Samfylkingarinnar.