Vinstrið mun lengi eiga erfitt uppdráttar

Drífa Snædal.

Drífa Snædal er nýkjörinn formaður Alþýðusambandsins. Hún hefur lengi verið viðloðandi íslensk stjórnmál og var m.a. framkvæmdastjóri Vinstri grænna.

Seinna hefur Drífa haslað sér völl í verkalýðshreyfingunni, var meðal annars framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.

Kallinn á kassanum rifjar upp að í fyrravetur var Drífa ein þeirra sem mótmæltu hvað harðast þátttöku VG í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Þá sagði Drífa sig úr flokknum með þessum orðum:

„Við og við vellur gröfturinn upp í formi frændhygli, innherjaviðskipta, skattaskjóla, auðvaldsdekurs, útlendingarandúðar eða skjaldborgar um ofbeldismenn. Þá verður VG í þeirri stöðu að verja samstarfsflokkinn og mörkin munu sífellt færast til í samstarfinu líkt og í ofbeldissambandi. Þetta verður eins og að éta skít í heilt kjörtímabil, ef stjórnin endist svo lengi.“

Og Drífa bætti við:

„Með ákvörðuninni um stjórnarviðræður setti flokkinn niður, trúverðugleikinn laskaðist verulega og vinstrið á Íslandi mun eiga erfitt uppdráttar næstu árin og áratugina.“