Það er gömul saga og ný, að tekist sé á um atvinnuuppbyggingu hér á landi. Deilur um nýttingu náttúruauðlinda á borð við fallvötnin hafa farið hátt undanfarin ár og áratugi og til eru þeir sem halda því enn fram að uppbygging Kárahnjúkavirkjunar og álver Fjarðaáls á Reyðarfirði, sem hart var tekist á um á sínum tíma, hafi verið mistök.
Hermann Guðmundsson framkvæmdastjóri ræddi þessi mál á fésbókinni í vikunni og setti fram sjónarhorn sem er allrar athygli vert:
„Ég átti þess kost í 12 ár að koma í söluferðir til Austfjarða í hverjum mánuði.
Á þeim tíma var mjög sterkt atvinnulíf á Norðfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Reyðarfjörður var hins vegar að lognast útaf, allur kvóti farinn, engin útgerð, engin vinna, engin ferðamennska og allt ungt fólk farið.
Allt þetta breyttist mjög mikið. Álverið er með fjölda af háskólafólki í vinnu, tugi iðnaðarmanna og hundruð starfa í allt. Framfærsla fólks er góð og öryggi allt árið í stað þess að vinna stopult í fiski.
Reyðarfjörður er í dag blómlegur bær, mikið mannlíf og byggðirnar í kring hafa allar styrkst mikið vegna þessara umsvifa. Ég er ekki að tala um byggingartímann heldur reksturinn dag frá degi.
Við hefðum getað hafnað þessari verksmiðju og vonast eftir einhverju öðru, það var stefna sem búið var að reka í 30 ár án árangurs,“ segir hann.
Og Hermann heldur áfram:
„Ef að við ætlum að byggja upp þetta samfélag (ekki bara 101) þá þurfa að vera til verðmætaskapandi störf um land allt. Sú hugmyndafræði að ekki megi nýta náttúruna á landsbyggðinni til að bæta þar lífskjör og tryggja afkomu er gjaldþrota.
Þessir íbúar eru í fullum rétti til að nýta þessa landkosti sér og sínum til framdráttar. Það er ekki nóg að tryggja rafmagn í Reykjavík og segja síðan öllum öðrum að horfa á landslagið.
Ef haldin yrði íbúakosning fyrir austan í dag þar sem boðið væri uppá að verksmiðjan færi og Kárahnjúkastíflan sprengd í burtu þá fullyrði ég að sú kosning færi 80/20 fyrir atvinnuna.
Slík kosning gæti hins vegar farið hvernig sem er hér á malbikinu.
Ef velja þarf á milli fossa eða fólks þá er mitt val alltaf fólkið.
Verum ósammála, það er ekkert að því, en virðum val þeirra sem búa á landsbyggðinni.“