Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og eigandi DV og tengdra miðla, fjallar um virkjanir og umhverfisvernd í færslu á fésbókinni.
Hann spyr:
„Hafa orkumannvirki skaðað Ísland? Mannvirki eins og Búrfell, Blanda, Kárahnjúkar, Mjólkárvirkjun, Lagarfoss, Smyrlabjargarárvirkjun, Reiðhjalli, Laxárvirkjun svo nokkrar virkjanir séu nefndar?“
Og lögmaðurinn heldur áfram:
„Held ekki. Ef eitthvað er hafa virkjanir þessar bætt lífsgæði og lífskjör allra og gert meðal Íslendingnum mögulegt að skoða landið og njóta fegurðar þess og fjölbreytileika án þess að eiga dýrar græjur tæki og tól. Þökk sé vegagerð sem tengd hefur verið þessum virkjunum.
Mannvirki breyta ásýnd þess lands þar sem þau eru reist, það er óumdeilt, þess vegna er almennt reynt að láta þau falla að umhverfinu, nema IKEA húsið sem stendur eiturblátt og heiðgult upp úr hrauninu og mosanum í Costcobyggðinni í Garðabæ.
Náttúruöflin breyta sjálf og óumbeðin ásýnd lands með skriðuföllum, snjóflóðum, vatnsflóðum og þurrkum. Við þær breytingar verðum við að sætta okkur.
Eins verðum við að sætta okkur við virkjanir sem leyft hefur verið að reisa af þar til bærum yfirvöldum í samræmi við lög og reglur sem Alþingi hefur sett og falið framkvæmdavaldið útfærslu á. Þeir sem telja á rétt sinn gengið með einhverri framkvæmd geta og eiga að leita úrlausna dómstóla um þann rétt sinn. Þannig virkar lýðræðið best.“