Vonandi kveikt á sjónvarpinu á dvalarheimili aldraðra sjálfstæðismanna

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

„Vonandi að það verði kveikt á sjónvarpinu á dvalarheimili aldraðra sjálfstæðismanna, sem eru harðastir í misskilningnum um orkupakkann.“

Þetta sagði Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í færslu á fésbókinni þar sem hann vakti athygli á viðtali við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í vikunni.

Guðlaugur Þór sagði í viðtalinu að hann teldi afskaplega óskynsamlegt ef Ísland myndi ganga út úr samstarfinu um EES-samninginn. Bætti hann því við að útsendarar frá norska Miðflokknum, sem hafi þá stefnu að ganga út úr EES, séu eins og gráir kettir á Íslandi.

„Ef menn kom­ast að þeirri nið­ur­stöðu, sem ég held að væri afskap­lega óskyn­sam­legt, að við vildum fara út úr EES, þá skulum við und­ir­byggja það mjög vel,“ sagði utanríkisráðherra.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Eins og Viljinn hefur rækilega fjallað um undanfarnar vikur og mánuði er mikil andstaða við innleiðingu þriðja pakkans í flestum stjórnmálaflokkum, utan Viðreisnar og Samfylkingarinnar. Miðflokkurinn er alfarið á móti innleiðingunni, Píratar hafa ekki tekið afstöðu til málsins, en innan stjórnarflokkanna eru skoðanir mjög skiptar.

Miðstjórn Framsóknarflokksins ályktaði þannig gegn innleiðingunni á haustfundi sínum og vill fá undanþágu frá raforkupakkanum. Margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lýst efasemdum um innleiðinguna og þeim fer einnig fjölgandi innan VG sem setja spurningamerki við málið.

Það kemur í hlut Guðlaugs Þórs sem utanríkisráðherra og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur iðnaðarráðherra að mæla fyrir þingsályktun og frumvörpum um innleiðingu orkupakkans á þingi og er gert ráð fyrir að það verði í næsta mánuði.